- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í gær voru haldnar menntabúðir SAMNOR skólanna en það er tengslanet framhaldsskólanna á svæðinu, þ.e. MA, VMA, MTR og framhaldsskólanna á Húsavík og Laugum. Þetta var í þriðja skiptið sem skólarnir sameinast um menntabúðir og í fyrsta skiptið sem þær eru haldnar rafrænt. Umsjón með menntabúðunum höfðu UT-mentorar í VMA.
Í upphafi voru tvö aðalerindi sem var ætlað að varpa ljósi á hvernig framhaldsskólinn er brú á milli grunnskóla og háskóla hvað tæknimál varðar. Bergmann Guðmundsson, verkefnastjóri í Giljaskóla, fjallaði um það hvernig starf í grunnskóla er að þróast í upplýsingatækni og kennslu og hvernig nemendur standa í þeim málum við lok grunnskóla. Á eftir því fjallaði Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi í HA, um það hvernig æskilegt er að nemendur standi að vígi, bæði í tæknimálum og annarri leikni, þegar þeir koma í háskóla. Þar kom fram að nemendur þurfa að búa yfir þekkingu á helstu forritum sem við erum nú þegar að nota í skólanum en einnig að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum, góðir í samvinnu, skapandi og hafa hæfni til að meta á gagnrýninn hátt upplýsingar og heimildir.
Þegar aðalerindum var lokið var boðið upp á tvær málstofulotur þar sem hægt var að velja á milli fjögurra erinda í hvorri. Málstofurnar sem voru í boði voru Turnitin, Book Creator í tungumála- og listnámi, Snjallvefjan, kynning á FabLab í VMA, Skapandi skil, Framtíðarsýn í media kennslu, umsýsla tækja og kennsluhugbúnaðar og SketchUp og Mindmeister.
Menntabúðirnar voru nokkuð vel sóttar og tókust þær mjög vel. Gert er ráð fyrir öðrum slíkum menntabúðum á vorönn, hvort sem nauðsynlegt reynist að halda þær rafrænt eða ekki.
Anna Eyfjörð UT-ráðgjafi í MA