Hlöðver Stefán Þorgeirsson er dux scholae 2013
Hlöðver Stefán Þorgeirsson er dux scholae 2013

Menntaskólanum á Akureyri slitið í 133. sinn: „Starf í skólum á að vera vel launað”
- sagði Jón Már Héðinsson í ræðu sinni við brautskráningu

Að morgni mánudagsins 17. júní sl. brautskráði Menntaskólinn á Akureyri 149 stúdenta við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni. Við það tækifæri gerði Jón Már Héðinsson skólameistari laun kennara að umtalsefni og sagði brýna þörf á að hækka grunnlaun þeirra og komast að samkomulagi um nýja vinnutímaskilgreiningu. Skólameistari vísaði í námskrárgerð og sívaxandi verkefni kennara, gerðar væru miklar kröfur til þeirra og nefndi þar m.a. samþættingu námsgreina, hagnýtingu upplýsingatækni og fagleg samskipti á ýmsum sviðum. Jón Már sagði Menntaskólann á Akureyri í fremstu röð við innleiðingu framhaldsskólalaga á grundvelli nýrrar menntastefnu.

„Starf í skólum á að vera vel launað vegna þess að það eru gerðar miklar kröfur til starfsfólks skólanna. Í stað þess að agnúast yfir þessu hefði ég viljað geta sagt takk fyrir skilning á mikilvægi kennarastarfsins. Það er vert að vekja athygli á því að það hefur um langa hríð verið stöðugleiki í skólasamfélaginu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrum menntamálaráðherra hafði framsýni til að ná sátt um metnaðarfulla menntastefnu í skólalögunum frá 2008, Katrín Jakobsdóttir fyrrum menntamálaráðherra hafði kjark til að fylgja henni eftir og ég trúi því að Illugi Gunnarsson núverandi menntamálaráðherra hafi djörfung til að ná samningum við kennara næsta vetur í anda framhaldsskólalaganna," sagði Jón Már í skólaslitaræðu sinni.

Hallarekstur áhyggjuefni

Hann vék einnig að rekstri framhaldsskólanna og hrósaði starfsfólki MA fyrir vilja og þolinmæði í aðhaldsaðgerðum undangenginna ára en hann sagði umhugsunarvert að þótt bekkjaskólar á borð við MA væru ódýrustu einingarnar í öllu skólakerfinu hefðu þeir verið reknir með halla árið 2012 og fyrirsjáanlega enn meiri halla árið 2013. Jón Már biðlaði til menntamálaráðherra um að berjast fyrir auknu fé til skólanna og hann sagði stöðugan sparnað og stærri nemendahópa gera starfsfólki MA erfitt fyrir að ná fram markmiðum um aukin gæði náms og minna brotthvarf nemenda.

Jón Már flutti yfirlit um þau viðamiklu verkefni sem unnið er að í skólanum og í samstarfi við ýmsa aðila, s.s. á sviði ferðamála, lýðheilsu, upplýsingatækni, námskrárbreytinga og skólaþróunar. Kennt hefur verið samkvæmt nýrri skólanámskrá síðastliðin þrjú skólaár og verður hún endurskoðuð í haust.

„Til þess að ná fram þeim breytingum sem lagt var af stað með í nýrri námskrá erum við að nálgast nemendur í enn ríkara mæli út frá styrkleikum þeirra, hvetja þá til að vera skapandi í námi sínu hvert sem viðfangsefnið er. Með aukinni tækni og netnotkun nemenda eykst mikilvægi kennarans, ekki aðeins til að miðla þekkingu heldur til að kenna nemendum að meta þekkingu og þjálfa færni og hæfni þeirra. Þetta krefst þess að kennarar séu í enn ríkara mæli óhræddir við að fara

ókunnar leiðir, prófa nýjungar og vera skapandi í lausnum," sagði skólameistari ennfremur.

Hlöðver Stefán er dúx skólans

Jón Már sagði skólann státa af metnaðarfullum nemendum sem margir hefðu náð framúrskarandi árangri. Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningar á skólahátíðini. Meðaleinkunn á stúdentsprófi var 7,38. Dux scholae er Hlöðver Stefán Þorgeirsson með einkunnina 9,28 og semidux Kristín Kolka Bjarnadóttir með 9,23 en alls voru 6 nemendur með ágætiseinkunn á stúdentsprófi. Á nýliðnu skólaári þreyttu 744 nemendur nám við skólann, 221 á fyrsta ári, 187 á öðru ári og sami fjöldi á þriðja ári og stúdentar voru 149. Hæstu einkunnir í bekkjum hlutu Arna Ýr Karelsdóttir í 1. bekk (9,89), Ásdís Björk Gunnarsdóttir í 2. bekk (9,79), Margrét Sylvía Sigfúsdóttir í 3. bekk (9,07) og Andri Már Þórhallsson í 4. bekk (9,79).

Skólameistari hrósaði nemendum fyrir umsjón og þátttöku í félagslífinu, sem stutt er skólasýninni en á ábyrgð nemenda og þeir hafi risið undir henni. Nefndi hann fjölbreytt dæmi og gat einnig um umræðu, sem hvergi nærri er lokið, þess efnis hvort einkunnarorð skólans um virðingu, víðsýni og árangur eigi að gilda einvörðungu innan veggja skólans eða hvar mörkin liggja. Fagnaði hann gagnrýninni umræðu um skólabraginn.

Mikilvægt að eiga sér griðastað í þögninni

Fulltrúar afmælisárganga fluttu ávörp og færðu skólanum gjafir. Þá flutti Alda Karen Ólafsdóttir Hjaltalín, sem var formaður skólafélagsins Hugins, ávarp nýstúdents áður en Jón Már færði nýstúdentum þakkir og heillaóskir. Hann sagði ánægjulegt að hafa starfað með þessum jákvæða, gagnrýna og glaðværa hópi sem leitt hefði skólalífið með myndarbrag.

„Skólagangan hefur reynt á ykkur með öðrum hætti en marga aðra, það er langt síðan námskránni hefur verið breytt eins mikið og hjá þeim árgöngum sem á eftir ykkur koma. Þið hafið ekki látið það slá ykkur út af laginu. Trúið mér, það býr margt í ykkur og þið hafið tengst traustum MA-böndum. Þið hafið verið að þroskast og móta mannorð ykkar í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk og það mun fylgja ykkur eins og skólinn. Við kennarar og starfsfólk höfum lagt áherslu á að þið hljótið góða menntun og leggið rækt við sjálfstæða gagnrýna hugsun. Í erli dagsins er mikilvægt að eiga sér griðarstað í þögn, á kvöldin áður en þið farið að sofa, rifja þá upp þrennt jákvætt sem þið gerðuð yfir daginn. Sannið til þetta breytir lífinu, þið sofið betur og þykir vænna lífið og þá sem næstir ykkur eru," sagði Jón Már Héðinsson.

Ræða skólameistara í heild hér.