- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Mentoraverkefninu Vináttu sem báðir framhaldsskólarnir á Akureyri, MA og VMA, hafa unnið að á undanförnum árum er lokið að þessu sinni. Lokasamkoman var í dag í Keiluhöllinni. Óskar Þór Halldórsson kom þar og tók myndir og viðtöl og skrifaði grein um verkefnið, sem hér er birt með góðfúslegu leyfi hans:
Í vetur eins og mörg undanfarin ár hafa Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri átt samstarf um verkefni sem er rekið með stuðningi og í samstarfi við Mentorverkefnið Vináttu. Verkefninu lauk formlega í gær og ljúka því að þessu sinni 20 framhaldsskólanememendur – 8 frá VMA og 12 frá MA – og jafnmargir nemendur úr 4. bekk grunnskólanna á Akureyri.
Um er að ræða heilsárs áfanga – sem hófst í september sl. og lýkur núna í apríl. Í VMA heitir áfanginn UPP183 og MEN173 í MA. Verkefnið er rekið með stuðningi og í samstarfi við Mentorverkefnið Vináttu sem er eitt verkefna Velferðarsjóðs barna. Í þau 11 ár sem verkefnið hefur verið starfrækt á Akureyri hefur það alltaf verið samstarfsverkefni MA og VMA með stuðningi Mentorverkefnisins. Fjölmargir aðrir skólar á Íslandi taka einnig þátt í verkefninu.
Mentorar yngri nemenda
Í þessu samhengi eru framhaldsskólanemarnir „mentorar“ þeirra yngri – en orðið „mentor“ er alþjóðlegt og er notað um leiðbeinanda sem aðstoðar yngri, óreyndari einstaklinga við að víkka sjóndeildarhringinn. Mentorverkefnið Vinátta byggir á þeirri hugmyndafræði að samskipti
barns og mentors séu jákvætt innlegg í líf barnsins því mentorinn verði barninu fyrirmynd og veiti því stuðning. Tengslin sem myndast milli mentors og barns geti því bætt við möguleika barnsins við mótun sjálfsmyndar sem komi fram m.a. í auknum námsáhuga og árangri auk aukinnar lífsleikni. Þessi tengsl skapar mentorinn fyrst og fremst með því að skipuleggja uppbyggjandi og skemmtilegar samverustundir í samráði við barnið og foreldra þess. Áhersla er lögð á gagnkvæman ávinning og hagsmuni samfélagsins í heild af því að börn og ungmenni kynnist og læri af aðstæðum hvers annars.
Í verkefninu eru gerðar þær kröfur til nemenda að þeir setji sér skýr markmið, sýni frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og séu skapandi í hugsun. Kennarinn hefur leiðbeinandi hlutverk sem felst í því að leiða nemendur áfram, byggja upp rétt andrúmsloft þar sem ríkir gagnkvæm virðing, traust og stuðningur.
Markmið með áfanganum er að nemendur:
• Vinni að velferð barna og öðlist víðtæka reynslu í samskiptum við börn.
• Auki skilning á stöðu sinni og annarra í samfélaginu.
• Fái tækifæri til að verða fyrirmynd og jákvætt afl í lífi grunnskólabarns.
• Fái þjálfun í að setja sér markmið í námi.
• Þjálfist í að meta eigin frammistöðu á gagnrýnin hátt.
• Sýni sjálfstæði í vinnubrögðum.
Nemendur (mentorar) verja tveimur til þremur stundum á viku með grunnskólabarni í 4. bekk.
Nemendur skila dagbókum þar sem samvistir nemenda og barna eru skráðar sem og mat nemenda
á því hvernig samskiptin ganga (trúnaðarupplýsingar).
Nemendur mæta í einstaklings og hópviðtöl til kennara. Viðtölin fara fram í þriðjudagstímum sem
skráðir eru á stundatöflu.
Umsjón með verkefninu hafa haft af hálfu VMA Ásdís Birgisdóttir, námsráðgjafi, og af hálfu VMA Valgerður S. Bjarnadóttir, félagsfræðikennari.
Í gær lauk verkefninu formlega með því að framhaldsskólanemarnir og krakkarnir sem þeir hafa hitt reglulega í allan vetur spiluðu keilu og síðan snæddi hópurinn saman. Þar með var settur punktur yfir i-ið í starfi vetrarins, sem eins og áður tókst afar vel.
Áhugavert og skemmtilegt
Katrín Hrund Ryan, nemandi á næstsíðustu önn textíl- og hönnunarkjörsviðs listnámsbrautar VMA, hefur sem mentor átt ófáar skemmtilegar stundir í vetur með Elís Þór Sigurðssyni, nemenda í 4. bekk Naustaskóla.
„Hugmyndafræðin gengur út á að para saman nemanda í framhaldsskóla og nemanda í grunnskóla og við höfum síðan hist einu sinni í viku í vetur og gert ýmislegt skemmtilegt saman um leið og við höfum dregið fram það besta hvort hjá öðru. Þó svo að ég sé sjálf 25 ára gömul og tveggja barna móðir taldi ég mig geta lært ýmislegt af þessu og það reyndist vera rétt. Ég sé síður en svo eftir því að hafa tekið þátt í þessu verkefni, þetta hefur verið virkilega áhugavert og skemmtilegt,“ segir Katrín.
Elís Þór segist sömuleiðis hafa lært mikið á samstarfinu við Katrínu. „Þetta hefur verið mjög gaman og ég er viss um að við eigum eftir að fylgjast hvert með öðru í framtíðinni,“ segir Elís Þór.
Ögrandi að hugsa út fyrir kassann
Hólmfríður Ásbjarnardóttir, nemandi á þriðja ári á tungumálabraut í MA, var í vetur mentor Ævars Valbjörnssonar í Naustaskóla.
„Ég ákvað að taka þátt í þessu vegna þess að mér fannst þetta afar spennandi og verðugt verkefni og síðan fáum við aukapunkta í náminu fyrir þetta. Upplifun mín af því að taka þátt í þessu er afar jákvæð. Við Ævar höfum hist reglulega og gert eitthvað skemmtilegt saman og það er ögrandi og skemmtilegt að hugsa út fyrir kassann og finna alltaf eitthvað nýtt og áhugavert að gera á Akureyri. Við höfum farið í sund á Hrafnagili, í keilu og gert margt, margt fleira skemmtilegt.
Verkefnið er mjög í takti við það sem ég bjóst fyrirfram við, þ.e. að vinna saman að því að efla félagstengsl og njóta þess að vera saman og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Hólmfríður. Ævar tekur heilshugar undir þetta og segir að þau Hólmfríður hafi skemmt sér mjög vel saman.
Myndir og texti: Óskar Þór Halldórsson