Fjórðubekkingar á Árshátíð MA 2013
Fjórðubekkingar á Árshátíð MA 2013

Árshátíð MA í gærkvöld verður í minningunni mikil skemmtun. Glæsibúið ungt fólk skemmti sér og öðrum á eftirminnilegan hátt.

Gestir gengu inn í anddyri hallarinnar og þar var sem komið væri í flugstöð. Þar biðu farmiðar allra gesta, þar voru flugsæti og flugumferð um loftið og tveir einkennisklæddir flugmenn vísuðu gestum til hátíðarsalar, en salarkynnum var með skreytingum skipt í nokkrar helstu stórborgir heims og kynningar í salnum voru í stíl tilkynninga í flugstöðvum og á járnbrautastöðum stórborganna. Á meðan gestir og yngri nemendur komu sér fyrir í sætum söfnuðust fjórðubekkingar saman uppi í efra sal þar sem þeir fengu aðstoð við að ganga frá smáatriðum í þjóðbúningum, ekki síst að festa skotthúfur á upphluts- og peysufataklæddar stúlkurnar. Síðan gekk þetta glæsibúna lið í salinn og raðaði sér upp á dansgólfinu og hóf hátíðna með því að syngja Gaudeamus og Skólasöng MA. Svo var gengið til dagskrár.

Það voru dætur flugmannanna, Þórhildur Steingrímsdóttir og Hildur María Hólmarsdóttir sem ásamt öðrum stjórnarmönnum skólafélagsins Hugins héldu utan um hátíðina og kynntu atburði, en þarna komu fram fjórar prýðilegar hljómsveitir nemenda með jafnmörgum söngvurum, skemmtilegt frumsamið misskilnings-Parísar-gamanleikrit Leikfélags MA með söngvum, tvær syrpur af smámyndböndum, annars vegar frá StemMA og hins vegar frá SviMA og að auki Minni karla og kvenna, eins og ævinlega.

Allt var þetta mjög skemmtilegt, en á engan verður logið að dansatriði Príma hafi slegið í gegn. Þar var líka henst fram og aftur um veröldina og dansatriði frá fjölmörgum löndum sett á svið með ótrúlegri fimi og samhæfni, stökkum og lyftum, klassískum samkvæmisdönsum, Bollywoodglingri, djassskotnum senum og strætabaráttu. Og þetta er bara brot af skemmtuninni. Og klæðnaður og allur umbúnaður var eftir því. Og þarna voru 200 dansarar og þar á meðal nokkrir tugir stráka. Frábært að sjá það, og heiðursgestur hátíðarinnar rifjaði upp að þegar hún var formaður Hugins þá hefði verið hægt að tosa þrjá stráka fram á gólf í dansatriði. En margir þessara krakka sem dönsuðu eins og þeir ættu heiminn voru líka í hljómsveitum, í leikritinu og jafnvel líka þjónar í veislunni. Þetta var glæsilegasta og fjölmennasta sýning Príma frá upphafi, og þess má vænta að sjá eitthvað af þessu listafólki stíga á svið í Hofi í Hnotubrjótnum seinna í dag.

Heiðursgestur var Edda Hermannsdóttir, sem var formaður Hugins 2005-2006 og var tíunda stúlkan í embætti formanns (þær hafa til þessa verið þrettán). Hún fjallaði um reynslu sína og mótun af félagslífinu og hvatti alla til að njóta þess og ögra sjálfum sér með krefjandi starfi til að efla sig og þroska fyrir lífið. Bjarni Karlsson formaður Hugins flutti líka hvatningarávarp og rómaði þá samstöðu sem gerir nemendur skólans að því sem þeir eru. Jón Már Héðinsson skólameistari ávarpaði fólk í lok dagskrár og lét reyna nokkuð á minni og minningar og þakkaði fyrir glæsilega hátíð.

Að þessari viðamiklu hátíð lokinni hófst dans, fyrst gömlu dansarnir með Þuríði formanni og hásetnunum á efri hæð og síðan klassíkst ball með Kaleo og Sálinni í stóra salnum.

Myndirnar sem hér fylgja eru aðallega af fjórðubekkingum áður en þeir gengu í salinn og svo af þeirri miklu hersingu á gólfinu í upphafi hátíðar.