Þórir Haraldsson. Mynd: Andri Már Þórhallsson
Þórir Haraldsson. Mynd: Andri Már Þórhallsson

Í dag kveður starfsfólk Menntaskólans á Akureyri góðan félaga og vin, Þóri Haraldsson líffræðikennara, sem lét af störfum í vor eftir fjörutíu ára farsælt starf við skólann.

Þórir byggði upp metnaðarfulla líffræðideild við skólann og fékk gott fólk til liðs við sig í því starfi. Samhliða kennslunni stundað hann rannsóknir á gróðri, breytingar á jöklum og var með einn jökul úti í Svarfaðardal í fóstri eins og hann orðaði það.  Hann var áhugamaður um lifnaðarhætti ísbjarna og var reyndar einn fremsti ísbjarnafræðingur landsins.  Þóri var mikið í mun að kveikja áhuga nemenda sinna á undrum líffræðinnar og hafði metnað fyrir þeirra hönd. Fjölmargir nemendur Þóris hafa lagt stund á líffræði í háskóla eftir að hafa numið fræðin undir handleiðslu hans.

Þóri var margt til lista lagt.  Hann var einstaklega líflegur og hlýlegur kennari, lék af innlifun flug fugla, vöxt blóma eða sameiningu fruma. Þórir var kennari af lífi og sál og notaði hvert tækifæri til að fræða og miðla á sinn einlæga og kankvísa hátt.

Í allmörg ár stóð Þórir fyrir gönguferðum á sunnudagsmorgnum, þetta voru náttúrulífsferðir eða lifandi vísindi þar sem Þórir leiddi samstarfsfólk sitt í allan sannleika um undraheim gróðurfars og dýralífs nærumhverfisins

Það hefur verið ómetanlegt að ganga hluta lífsgöngunnar með Þóri. Við höfum velt vöngum yfir lífinu, ég hef hlustað á heilræði hans, því hann kom reglulega með heilræði, benti mér á hvað betur mætti fara og hvað væri að takast vel. Hann hafði gaman af orðaleikjum og hafði næma sýn á margræðni orða. Það var gaman að hlusta á hann segja gamansögur af sjálfum sér sem áttu svo oft við mann sjálfan líka.

Menntaskólinn á Akureyri þakkar Þóri tryggð og vel unnin störf í fjóra áratugi og sendir Unu og dætrum þeirra Rósu Rut, Ingu Jónu og Ásu Völu sem og öllum aðstandendum hans og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri

Jón Már Héðinsson skólameistari

(Kennsla í skólanum var felld niður frá og með klukkan 12.20 vegna jarðarfarar Þóris.)