- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Móheiður Guðmundsdóttir í 3F varð hlutskörpust í Söngkeppni MA í kvöld. Hún söng gamla og góða lagið Bang-Bang (My Baby Shot Me Down) við gítarundirleik Tandra Gaukssonar. Þetta ágæta lag, sem ýmsir hafa áður sungið, meðal annars Nancy Sinatra, er upphaflega úr smiðju Sonny Bono og flutt af Sonny og Cher 1966. Móheiður verður fulltrúi MA í Söngkeppni framhaldsskólanna, sem verður vonandi haldin hér norðan heiða eins og á undanförnum árum.
Í öðru sæti í keppninni í kvöld varð Sigrún Helga Andrésdóttir í 4F, en hún fluttl lagið Hurt, sem Christina Aguilera hefur áður sungið. Í þriðja sæti varð svo Hákon Guðni Hjartarson í 2A en hann söng gamalkunnan smell, Cry me a River. Lagið samdi Arthur Hamilton fyrir Ellu Fitzgerald árið 1953 og það var fyrst gefið út árið 1955, en samkvæmt sumum heimildum hafa nokkuð á annað hundrað söngvarar flutt lagið á plötum, meðal þeirra Michael Bublé.
Vinsælasta atriðið samkvæmt símakosningu var svo Marín Eiríksdóttir sem söng Bítlalagið Let It Be.
Söngkeppnin var afar vel sótt og alls voru á dagskrá 21 atriði og þar á meðal var margt verulega góðra söngvara, svo dómnefnd átti alls ekki auðvelt val. Hljómsveit kvöldsins var með ævilöngu og illstafsetjanlegu nafni en þar voru á ferð drengirnir í LMA-hljómsveitinni frá síðasta vetri. Þeim fórst afar vel úr hendi allur undirleikur. Í örfáum lögum komu aðrir spilarar við sögu.
Á myndinni eru frá vinstri Sigrún Helga, Móheiður í miðju og Hákon Guðni lengst til hægri. Myndasyrpa er á Facebook.