Við Hverarönd
Við Hverarönd

Nemendur í náttúrulæsi fóru í frábæra námsferð í Mývatnssveit í dag. Þótt ekki liti vel út með veður reyndist það gott og ferðin var bæði forvitnileg og fróðleg. Logn var í sveitinni, snjór talsverður á túnum og ís ekki farinn af vatninu. Þegar leið að hádegi tók sólin að bora sér leið gegnum skýin og á endanum var orðið léttskýjað og fagurt um að litast.

Nemendur í bekkjunum fimm fóru austur á fjórum rútubílum, ekki var skipt í bílana eftir bekkjum. Viðkomustaðir og viðfangsefni voru í Fuglasafni Sigurgeirs í Neslöndum, við Hverarönd, Námaskarð og Grjótagjá, við gervigígana hjá Skútustöðum, í hraunmyndunum við Grænavatn og lindirnar við vatnsbakkann og litið var á sauðburð í fjárhúsum þar á bæ og loks var sett upp svolítil rannsóknastöð í Skjólbrekku þar sem verkefnið var að kryfja og skoða andvana borin lömb.

Þessar Mývatnssveitarferðir hafa jafnan gengið vel en í þetta sinn fannst kennurum að minnsta kosti að betur hefði tekist en oft áður að sýna fram á að það er hægt að ferðast, fræðast, upplifa og hafa gaman, allt í senn, eins og EInar Sigtryggsson og gestakennarinn Jónas Helgason höfðu báðir á orði.

Hér eru myndir úr ferðinni.