- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendur í NÁT hluta Íslandsáfangans í 1. bekk Menntaskólans á Akureyri fóru á miðvikudaginn í námsferð í Mývatnssveit og öfluðu sér margvíslegra uopplýsinga um náttúru sveitarinnar. Farið var á fjórum rútum austur og sex kennarar voru með í för. Eftir stuttan stans, skoðun og myndatökur við Goðafoss var ekið upp í Mývatnssveit. Rigningarsuddi var á Akureyri en veður skánaði eftir því sem austar dró. Ekki var fjallasýn en veður að öðru leyti gott til úti- og inniverka.
Hóparnir fóru á fjórar skoðunarstöðvar. Ein stöðin var Fuglasafn Sigurgeirs í Neslöndum. Þar söfnuðu nemendur upplýsingum um fulga og byrjuðu verkefni um þá. Önnur stöð var svo jarðhitasvæði og flekahreyfingar. Þá var farið að Hverarönd, í Grjótagjá og Dimmuborgir. Þriðja stöðin var svo um mismunandi hraun og gos. Þá var farið um helluhraun og apalhraun við Grænavatn og einnig skoðuð nýting hraungrýtis til bygginga. Jafnframt var farið að skoða gervigíga við Skútustaði. Fjórða stöðin hafði miðstöð í Skjólbrekku en hópar sem þar unnu fóru fyrst að Geirastöðum. Þar tóku bændur vel á móti nemendum, Finnbogi Stefánsson fór með þá niður að Laxá og hafði tiltæka steina úr árbotninum með mýlirfum, sem nemendur fengu að taka sýni af, og einnig átti hann handa þeim dauðar mýs til að kryfja. Hann fræddi nemendur um vatnsbúskapinn og lífríki vatnsins en Hjördís dóttir hans fór með nemendur að stíflu í einni árkvíslinni og fræddi þá um náttúruvernd og áhrif mannshandarinnar á náttúruna. Talsvert bitmý var þarna, enda veður með ólíkindum hlýtt viku af október.
Nemendur vinna nú úr þessum gögnum á næstunni. Fáeinar myndir eru hér en fleiri myndir úr ferðinni má nú sjá í myndasafni.
Sambærileg námsferð stendur fyrir dyrum hjá SAM-hópi Íslandsáfangans í nóvember næstkomandi á söguslóðir á Tröllaskaga.