Sigurður Hansen á Haugsnesi
Sigurður Hansen á Haugsnesi

Nemendur í ýmsum greinum í skólanum fara í ferðir til þess að sjá, heyra og þreifa á ýmsu sem viðkemur náminu. Þessar náms- og vettvangsferðir dýpka skilning á því sem á bók er lesið og námið verður við það nánara og gagnlegra en ella.

Ein slík ferð var farin í dag á Sturlungaslóðir. Nemendur í 3. bekk félagsfræðideildar lögðu af stað snemma í morgun og fyrsti áfangastaður var Munkaþverárkirkja í Eyjafirði. Þar tók sr. Hannes Blandon á móti hópnum og fjallaði um sögu Íslands, kristilega og veraldlega, og sérstaklega um næstelstu kirkju í Eyjafirði, Munkaþverárkirkju. Að loknum lestri hans fluttu nemendur undirbúið verkefni við minnismerki um Jón Arason biskup, sem tekinn var af lífi á þessum degi árið 1550. Á leið að Jónasarlundi með viðkomu að Gásum fluttu nemendu nokkur verkefni í bílunum. Eftir áningu undir Hraundranga var haldið yfir í Skagafjörð og enn voru í bílunum flutt verkefni um sögu Sturlunga. Komið var að Kringlumýri þar sem Sigurður Hansen bóndi og fræðimaður sýndi safn- og sýningarhús um Þórð Kakala og fór síðan með nemendur á Haugsnes og sýndi hugmyndir sínar um það hvernig bardagi hafi farið þar fram. Nemendur fluttu einnig verkefni um orrustur í Skagafirði. Loks var komið heim að Hólum og þar fluttu sr, Jón A. Baldvinsson vígslubiskup og Skúli Skúlason rektor fróðleik um kirkju, kristni, biskupsstólinn og skólahald. Síðan var haldið heim á leið.

Stutt er síðan nemendur í Íslandsáfanganum fóru náms- og kynnisferðir. Nemendur í náttúrufræðihlutanum fóru dagsferð í Mývatnssveit. Þar var skoðað Fuglasafnið og unnin verkefni, síðan var farið um jarðhitasvæði og skoðaðar sprungur og hraunmyndanir, litið var á gervigíga og gengið um mismunandi hraun og skoðað hvernig hraunið hefur verið nýtt til bygginga, og loks var gengið út í náttúruna, sýnum safnað og þau skoðuð í smásjá og víðsjá.

Nemendur í samfélagshlutanum fóru dagsferð til Siglufjarðar og skoðuðu atvinnusögu og menningarsögu með því að fá leiðsögn um Síldarminjasafnið í Roaldsbrakka, bræðslusafnið í Gránu, sjóferða- og skipasafnið í Bátahúsinu, og þá var farið í heimsókn á Þjóðlagasetrið og einnig komið í kirkju og hlýtt á sóknarprestinn. Allar þessar ferðir draga svo á eftir sér umræður og margvísleg verkefni eftir heimkomu.

Á myndinni sést Sigurður Hansen lýsa Haugsnesbardaga í dag. Myndsyrpa úr ferðinni er hér.