Fyrsti námsmatsdagur annarinnar verður föstudaginn 20. september. Flestir námsmatsdagarnir eru í lok annar, en á þessari önn eru einnig þrír dagar sem dreifast yfir önnina, 20. september, 16. október og 11. nóvember. Á námsmatsdögum sem eru á miðri önn, er ekki kennt samkvæmt stundaskrá og ekki mætingaskylda í skólann nema í próf. Nemendur fá frjálsan tíma til að vinna að verkefnum og lesa námsefni. Símatspróf eða sjúkrapróf geta þó verið haldin þessa daga og er skyldumæting í þau.

Fyrsta námsmatsdaginn, 20. september, verður ráðstefnan Menntun til framtíðar, um rannsóknir og nýbreytni í framhaldsskólum, haldin í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og ætla allmargir kennarar úr MA að leggja land undir fót og sækja hana. Tveir kennarar úr MA, Anna Eyfjörð og Eva Harðardóttir verða með málstofu á ráðstefnunni og segja frá Menntabúðum.