Fyrstabekkjarsvæðið á söngsal í Kvosinni í dag
Fyrstabekkjarsvæðið á söngsal í Kvosinni í dag

Í Menntaskólanum á Akureyri er unnið markvisst að því að auðvelda nemendum að takast á við námið. Á þessu hausti má segja að starfið sér fastmótaðra en það hefur verið undanfarin ár.

Náms- og starfsráðgjafar skólans hafa í samstarfi við sviðstjóra hitt alla nýnema og farið yfir vinnuvenjur sem nýtast vel náminu, meðal annars að gera sér vinnuáætlanir og setja sér markmið. Ráðgjafarnir segja að nýnemarnir séu staðráðnir í því að standa sig vel í náminu og það hafi verið kærkomið að hitta þá og byggja ofan á þann góða grunn sem þeir búa að úr grunnskólum landsins. Vonir standi til að þessi leiðsögn í upphafi námsins nýtist þeim fyrir komandi nám í MA og í því framhaldsnámi sem bíður þeirra að útskrift lokinni.

Í menningar- og náttúrulæsi er enn fremur unnið að því að styrkja nemendur í náminu. Í upphafi annar var leshraði og lesskilningur kannaður og verður unnið að því í allan vetur að þjálfa lesturinn og skilninginn með ýmiss konar reglulegum æfingum, þar sem stefnt er að því að þeir verði meðvitaðir um leshæfni sína og geti tekist á við mismunandi lesefni með viðeigandi tækni.

Að auki er sérstaklega tekið á því að þjálfa nemendur í náttúru- og menningarlæsi í að nota ritvinnslu við alls kyns verkefni, stór og smá, og stilla ritvinnsluforritið Word sér í hag. Einnig eru þeir þjálfaðir í að nýta sér möguleika Excel við að reikna út töluleg viðfangsefni og að gera útreikninga sýnilega. Þessi þjálfun í ritvinnslu og töflureikningi mun nýtast nýnemunum í margvíslegum æfingum og verkefnum í vetur og auk þess vera nauðsynleg undirstaða alls kyns verkefnavinnu þeirra í þeim áföngum sem við taka í efri bekkjum.