Nemendur fara að öllu með gát
Nemendur fara að öllu með gát

Á þriðjudag fóru kennarar og nemendur í náttúrulæsi í dagsferð austur að Mývatni. Skartaði Mývatnssveit sínu fegursta í haustlitunum og glampandi sól. Reyndar var hríðarmugga á leiðinni og útlitið ekki bjart í Reykjadalnum þar sem snjóaði hressilega. MA-ingar höfðu skoðað veðurspár langt fram í tímann og létu þetta ekki stoppa sig. Þeir vissu að dagurinn yrði blíður og góður.  

Fjórir bekkir voru á ferðinni. 1. TUV og X, hver með sínum umsjónarkennara og hver í sinni rútu. Passað var upp á að engir bekkir væru á sama stað á sama tíma og gekk það skipulag afar vel upp. 

Í Mývatnssveit drógu kennarar bekkina sína á hvern ævintýrastaðinn á fætur öðrum. Við Skútustaðagíga fengu nemendur að fræðast um myndun gervigíga og aukreitis fengu þeir að rekja garnirnar úr hauslausri önd. Í Dimmuborgum gerðu menn ýmislegt. Sumir skoðuðu Kirkjuna og Gatklett á meðan aðrir hlustuðu á þögnina. Í Grjótagjá var svo hægt að stökkva á milli heimsálfa, gera armbeygjur eða planka milli heimsálfa. Kennurum þótti nóg um þegar nemendur voru farnir að gera armbeygjur með klappi yfir dauðadjúpum sprungunum.  

Nemendur voru, hvar sem þeir komu, tilbúnir í að svitna aðeins. Gangan á Hverfjall var þar engin undantekning. Sumir tóku aukaklifur upp á suðurtind gígsins en tveir snillingar úr X-bekknum létu plata sig í að hlaupa hringinn á gígbarminum. Fóru þeir létt með það enda vegalengdin ekki nema 3,2 km. 

Á Hveri við Námafjall var gaman að koma og sem fyrr þá voru nemendur fræddir um hverina og töframátt leirsins sem þar finnst í miklum mæli. Einhverjir þorðu að maka leirnum í andlitið en ákveðinn kennari í hópnum heldur því fram að leirinn sé lykillinn að æskuljóma hans. Reyndar var ýmislegt á hverasvæðinu afar sorglegt að sjá. Greinilegt var að ferðamenn höfðu nýtt sér fámennið í sumar til að vaða um allt og lágu því fótspor nánast ofan í suma hverina og voru spjöll af þeim mikil. 

Dagur í Mývatnssveit svíkur engan og telja kennarar að ferðin hafi heppnast afar vel. 

Texti: Einar Sigtryggsson - Mynd: Gunnhildur Ottósdóttir