Nemendur fyrir framan Ríkisþinghúsið í Berlín. Mynd: Margrét Kristín Jónsdóttir
Nemendur fyrir framan Ríkisþinghúsið í Berlín. Mynd: Margrét Kristín Jónsdóttir

Hópur nemenda í áfanganum ÞÝSK2BE05 er þessa dagana staddur í Berlín. Hópurinn, sem samanstendur af 24 nemendum úr 3. bekk, er í fylgd Margrétar Kristínar Jónsdóttur kennara. Ferðalagið er hluti af svokölluðum Berlínaráfanga þar sem nemendur kynna sér mannlíf og menningu þessarar sögufrægu höfuðborgar Þýskalands. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Margrét ferðast um á söguslóðum í Þýskalandi. Hún segir „Berlín alltaf vera dásamlega og gott að mega koma þangað aftur með nemendahópa“.

Að loknum akstri suður yfir heiðar um nótt og flugferð yfir hafið, tók við þéttskipuð dagskrá á götum Berlínar á fyrsta degi ferðalagsins. Eftir langa gönguferð um breiðstrætið (Unter den Linden) þar sem margt áhugavert kom fyrir sjónir nemenda, var endað við Brandenburgertor. Í dag, á öðrum degi ferðalagsins, tóku ekki minna áhugaverðar söguvörður við – East Side Gallery, Ríkisþinghúsið Reichstag og minnismerkið um helförina svo eitthvað sé nefnt.

Ferðalag Margrétar og nemenda hennar er ekki nema rétt um það bil hálfnað. Enn er því nægur tími til að upplifa mannlíf og menningu Berlínarborgar. Von er á ferðalöngunum heim laugardaginn 2. apríl.