- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þriðjudaginn 19. mars héldu nemendur, sem eru í útivistaráfanga í MA, til Ólafsfjarðar að heimsækja nemendur í útivistaráfanga í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Með í för voru kennararnir Þórhildur Björnsdóttir og Sonja Sif Jóhannsdóttir. Kennarar úr Menntaskólanum á Tröllaskaga, þau Kristín Anna Guðmundsdóttir, Lísbet Hauksdóttir og Tómas Atli Einarsson tóku á móti hópnum en þau höfðu skipulagt dagskrá yfir daginn.
Sameinaðum hópi MA-inga og MTr-inga var skipt í þrjá minni hópa, A, B og C sem skiptust á að fara í mismunandi stöðvar. Hver stöð tók um 1 og ½ tíma. A hópurinn fór fyrst á gönguskíði undir sterkri handleiðslu Lísbetar sem er margfaldur Íslandsmeistari á gönguskíðum. Færið var ekkert sérstakt um morguninn, frekar snjólítið og hart, en nemendur og kennari gerðu það besta úr stöðunni. Á meðan A hópurinn var á gönguskíðum, gekk B hópurinn upp hlíðina á fjallaskíðum. Þar kenndi Tómas Atli þeim að nota ýli til að leita að fólki sem hefur lent í snjóflóði. Einnig lærðu þau aðeins á áttavita. Þau renndu sér svo niður í skóla aftur á skíðunum. C hópurinn fékk að prófa að ganga á snjóþrúgum en færið var reyndar alls ekki gott fyrir þær. Þau eyddu því mestum tímanum að renna sér á brettum niður brekkuna bak við skólann. Sú skemmtun var oft ansi ævintýraleg eða jafnvel hættuleg því nemendur náðu þvílíkum hraða á þessum brettum á hörðu hjarninu.
Milli hverra stöðva var síðan hádegismatur eða nesti og alltaf fengu nemendur kakó í kroppinn milli stöðva og meira að segja handþeyttan rjóma í lokin. Eftir síðustu stöð fór allur hópurinn í sjósund, þó ekki allir hafi þorað út í, og síðan í heitan pott í sundlauginni á Ólafsfirði. Á leið heim var stoppað á Dalvík á pizzahlaðborði.
Dagurinn var vel heppnaður og nemendur flestir ánægðir með hann.
Höf: Sonja Sif og Þórhildur