- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Á vorönn stunda nemendur í Menntaskólanum nám í áfanganum Lýðræði og mannréttindi. Eva Harðardóttir kennari stýrir hópi 24 galvaskra nemenda úr 2. og 3. bekk þar sem markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru í forgrunni. Markmiðin sem heyra undir Stjórnarráð Íslands ganga gjarnan undir nafninu Heimsmarkmiðin 2030. Á heimasíðu Stjórnarráðsins er hægt að lesa sér til um markmiðin þar sem fram kemur að þau „eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi.“
Í áfanganum vinna nemendur með Heimsmarkmiðin á fjölbreyttan hátt. Krakkarnir byrja á því að kynna sér starfsemi SÞ og ólíkra sérstofnana sem vinna á einn eða annan hátt undir formerkjum heimsmarkmiðanna, ýmist innanlands og/eða í alþjóðasamstarfi. UNICEF, UN Women, UNESCO, UNFPA og WFP og FAO er dæmi um slíkar stofnanir. Í framhaldinu eru hugmyndir um lýðræði og mannréttindi skoðaðar út frá þátttöku ungs fólks og hvernig hægt er að skapa með sér og öðrum umbreytandi (transformative) borgaravitund. Í því felast vagaveltur um hvernig við nýtum réttindi okkar og skyldur í samfélaginu til þess að skapa réttlátara og betra samfélag fyrir alla. Nemendur vinna saman í litlum hópum og skipuleggja ráðstefnu á vordögum. Er það von nemenda og kennara að hún verði vel sótt af öllum þeim sem láta sig heimsmarkmiðin varða.
Nýlega gáfu Sameinuðu þjóðirnar út skýrsluna Youth and the 2030 Agenda for Sustainable Development. Hún fjallar um ungt fólk og Heimsmarkmiðin. Í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn þess að ungt fólk komi að ákvarðanatöku varðandi sjálfbæra þróun, eigi markmiðin að nást. Aukinheldur blasi miklar áskoranir við mannkyninu í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga, fátækt, kynjamismun, átök og fólksflutninga þar sem frumkvæði ungs fólks geti skipt sköpum. Þá fjallar skýrslan sérstaklega um mikilvægi menntunar og möguleika ungs fólks til atvinnu og þátttöku í samfélaginu.
Einn nemandi í áfangangum er meðlimur í Ungmennaráði Íslands um Heimsmarkmiðin 2030. Hulda Margrét Sveinsdóttir er einn af 12 fulltrúum sem valdir voru úr hópi 100 umsækjenda til að sitja í Ráðinu. Fjallað er um hlutverk Ungmennaráðsins á heimasíðu Stjórnarráðsins en þar segir m.a. að Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að af landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið fundar sex sinnum á ári og þar á meðal árlega með ríkisstjórn. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir jafnframt stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna.