Una Haraldsdóttir
Una Haraldsdóttir

Tveir nemendur MA halda einleikstónleika á hádegi á Kirkjulistaviku Akureyrarkirkju í vikunni. Þetta eru Una Haraldsdóttir í 3. bekk U og Birkir Blær Óðinsson í 1. bekk F. Miklu fleiri nemendur skólans taka þátt í dagskrá Kirkjulistaviku, meðal annars í sérstakri dagskrá ungs fólks.

Una Haraldsdóttir heldur orgeltónleika sína í kirkjunni þriðjudaginn 25. apríl klukkan 12.10. Á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir Pablo Bruna, Michel Corrette, Dieterich Buxtehude og Olivier Messiaen.

Una Haraldsdóttir er 18 ára píanó- og orgelleikari. Una hóf píanónám 8 ára gömul við tónlistarskólann á Akureyri og lauk framhaldsprófi á píanó árið 2016. Una hefur lært á orgel frá árinu 2011, fyrst hjá Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur og í vetur hjá Eyþóri Inga Jónssyni, og stefnir á framhaldspróf næsta vetur. Una hefur tvisvar sinnum farið á masterclass í Konunglega danska tónlistarháskólanum þar sem hún sótti tíma hjá Bine Bryndorf og Hans Davidsson, og hefur lokið 10 einingum á háskólastigi í orgelleik
Una hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og einnig tekið þátt í mörgum samspilsverkefnum bæði í tónlistarskólanum. Utan skólans hefur Una spilað víða, oft með Eik systur sinni ásamt því að vera í húsbandinu á söngkeppni MA og einnig verið í hljómsveit LMA bæði í Rauðu Myllunni og Konungi Ljónanna og er núna annar tveggja tónlistarstjóra í söngleiknum Anný hjá LMA.

Birkir Blær Óðinsson söngvari og gítarleikari heldur hádegistónleika sína í Safnaðaheimili Akureyrarkirkju miðvikudaginn 26. apríl klukkan 12.10.

Birkir Blær er 17 ára söngvari, gítarleikari og loopari flytur nokkur af sínum uppáhaldslögum á hádegistónleikunum.

Birkir Blær hefur komið víða fram undanfarið. Hann var verðlaunahafi á lokahátíð Nótunnar, uppskeruhátíð tónlistarskólanna 2016, tók þátt í úrslitum söngkeppni Samfés, var í öðru sæti og valinn með vinsælasta aðtriðið á söngkeppni MA, kom fram í sjónvarpssal í spurningakeppninni Gettu betur, söng á útitónleikum N4 sumarið 2016, auk þess að koma fram á ýmsum tónleikum, kirkjuathöfnum og á atburðum í Menntaskólanum á Akureyri.

Like-síða Birkis:
https://www.facebook.com/birkirblaerodinsson/?fref=ts

Youtube-rás:
https://www.youtube.com/channel/UCPOlrVJ1AgF0hBXsNtO88Pg

Unga fólkið er yfirskrift tónleika þar sem langt komnir tónlistarnemendur leika og syngja fjölbreytta dagskrá sem samanstendur af íslenskum sönglögum, kvikmyndatónlist, Eurovisionlögum og klassískum píanóperlum. Þar í hópi eru margir nemendur MA. Fram koma Strengjasveit 3 úr Tónlistarskólanum á Akureyri, Stúlknakór Akureyrarkirkju, Þórunn Bjarnadóttir, Una Haraldsdóttir, Salka Björt Kristjánsdóttir og Alexander Smári Edelstein. Stjórnendur: Ásdís Arnardóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir. Þessir tónleikar eru miðvikudaginn 26. apríl klukkan 18.00 í Akureyrarkirkju.

Birkir Blær
Birkir Blær Óðinsson