Hópavinna með nemendum á Mörsugsmessu í janúar 2019
Hópavinna með nemendum á Mörsugsmessu í janúar 2019

Starfsþróun er snar þáttur í skólastarfinu og hefur starfsfólk MA haldið sérstakar menntabúðir innanhúss síðustu þrjú skólaár. Fimmtudaginn 4. apríl verða síðustu menntabúðir þessa skólaárs og þá verður sú nýlunda höfð á að nemendur í skólanum sjá um og stýra öllum málstofunum sem í boði eru enda skyldi aldrei litið fram hjá því að nemendur eru bæði upphaf og endir alls í skólastarfinu.

Málefnin eru af margvíslegum toga enda margt sem brennur á nemendum. Þarna verður fjallað um kosti og lesti snjallsímanotkunar í skólastarfinu, hvernig hægt er að endurspegla margbreytilegt nútímasamfélag í námsefni og kennslu, hvernig bæta megi aðgengi fatlaðra í húsum skólans, hvernig skólasamfélagið geti betur lagt sitt af mörkum í umhverfismálum og að lokum fjalla nemendur um hvernig náms- og kennsluaðferðir hafa gagnast þeim best.

Mæting er valfrjáls bæði nemendum og kennurum. Kjósi kennari að kenna sinn tíma er nemendum frjálst að taka þátt í menntabúðunum en mæting þeirra er skráð í málstofu þar sem mætingarlistar verða látnir ganga.

Nánari kynning á menntabúðunum og skráningarform er hér fyrir neðan. Opnið hana endilega á öllum skjánum (Full screen).