- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í vetur hefur verið bryddað upp á nýjungum í 1. bekk í MA, meðal annars til að hjálpa nemendum að takast á við erfiðan vinnudag, enda hefur álag á nemendur aukist við styttingu náms til stúdentsprófs. Annars vegar hafa nemendur fengið kynningu á núvitund (mindfulness) og hins vegar verið í reglulegum jógatímum með slökun. Hér gera kennarar grein fyrir því hvað í þessu felst. Það er sem sagt eitt og annað nýtt í Menntaskólanum á Akureyri, þótt því hafi nýverið verið lýst í sjónvarpi að þegar gengið sé inn í MA breytist veröldin í svart-hvítt (!)
Við Menntaskólann á Akureyri starfar teymi sem heldur utan um nýnemafræðslu og forvarnir í 1. bekk. Teymið mynda þau Heimir Haraldsson og Lena Rut Birgisdóttir námsráðgjafar ásamt skólasálfræðingi skólans, Kristínu Elvu Viðarsdóttur.
Meðal þess sem nýnemafræðslan felur í sér er kynning á núvitund (mindfulness). Núvitund felur í sér bjargir til að takast á við áreiti í veröld þar sem álag er mikið og einbeitingarskortur hrjáir marga. Núvitund er þjálfuð með einföldum æfingum þar sem reynt er að fá þátttakendur til að skynja hugsanir sínar og tilfinningar án þess að dæma. Athyglinni er beint að líkama, öndun og hugsunum / tilfinningum.
Nemendur í 1. bekk fengu allt að 10 kennslustundir á vorönn þar sem kynntar voru áherslur núvitundar í bland við ýmis konar æfingar. Námsefnið er að miklu leyti byggt á námsefninu .b sem stendur fyrir Stop, Breathe and Be! Brynjar Karl Óttarsson sá um kennsluna. Hann hefur sótt núvitundarnámskeið m.a. í London á vegum Mindfulness in Schools Project (MISP) auk þess sem hann hefur boðið upp á námskeið fyrir áhugasama.
Líta má á núvitundarkennsluna sem nokkurs konar tilraun til að sá fræjum sem vonandi nýtast einhverjum. Vonir eru bundnar við að þessi nýja nálgun í nýnemafræðslunni auðveldi nemendum að takast á við krefjandi verkefni líðandi stundar.
Á vorönn 2017 ákváðu íþróttakennarar skólans að brjóta meira upp kennsluna í faginu ,,Heilbrigði og lífstíll“ sem, með tilkomu nýrrar námsskrár, hefur verið breytt í það heiti til þess að víkka enn frekar út hvað felst í faginu og komast út úr því fari að íþróttir séu meira og minna tengdar við boltaíþróttir.
Úr varð að tveir tímar í viku eru búnir að vera nokkuð hefðbundnir í íþróttahúsinu okkar, Fjósinu, en einn tími í viku er eins konar jakkafatajóga. Tímarnir eru á Miðsal í Gamla skóla og hugsunin er að brjóta upp skóladaginn með endurnærandi léttum leikfimiæfingum í 30-40 mínútur og síðan 10-20 mínútna slökun á eftir. Markmiðið er að vekja líkamann upp með æfingunum og róa síðan hugann í framhaldinu og vera enn tilbúnari til að takast á við verkefni dagsins. Enn fremur er búið að vera opna rifu á glugga í huga iðkendanna með því að lauma að fræðslu um mikilvægi hléæfinga í dagsins önn, sérstaklega þar sem þeir eru í meira og minna í kyrrsetuvinnu allan daginn. Með þessari einföldu slökun er einnig verið að leggja verkfæri í hendur iðkenda sem þeir geta gripið til í dagsins önn þegar álagið er mikið eða kvíðahnútur er að myndast í maganum og erfitt er að einbeita sér. Sumir nýta aðferðirnar til þess að róa sig niður fyrir próf og/eða til að geta sofnað á kvöldin.
Upplifunin er að langflestir iðkendur upplifa slökunina afar jákvætt og margir jafnvel elska hana. Þróunin varð sú að einu sinni í mánuði hefur verið mjög djúp markviss slökun sem tekur allt upp undir 40 mínútur. Eins og áður segir hafa þeir tímar fallið í góðan farveg og jafnvel getur farið svo að djúpslökunartímarnir verði oftar í mánuði. Framtíðarsýnin er að bjóða öllum nemendum skólans og starfsfólki upp á nokkra slíka opna tíma í viku hverri. Með því að kynna þetta fyrirkomulag öllum nemendum á fyrsta ári þá ættu smám saman allir nemendur skólans að þekkja áhrifin af þessari ástundun og því geta þeir sótt í þetta sem áhuga hafa til þess að hlúa að sér í dagsins önn.
Umsagnir frá iðkendum um tímana:
,,Mér finnst þetta góðir tímar sérstaklega hugleiðsla eða slökun fyrir próf“
,,Slökun er mjög góð að því leyti að það brýtur upp á skóladaginn og maður kemst frá álagi lærdómsins í smá tíma :)“
,,Í hraða nútímasamfélags er gott að geta leitað inn á við. Því miður er dagskráin oft þéttbókuð og hugleiðsla neðarlega á forgangslistanum. Menntaskólinn á Akureyri kom með lausnina; einn íþróttatími á viku fer í slökun og teygjur enda ekki síður mikilvægar en þrek. Þessir tímar eru frábærir.“
,, Mér finnst tímarnir hjálpa mér að slaka á og vera bara í núinu sem ég næ annars yfirleitt ekki, ná meiri tökum á mínu stressi:)“
,,Stundum sofnar maður stundum ekki, hugleiðsla og yoga eru jákvæð fyrir heilsu og er því gaman að hafa smá hugarleikfimi inn á milli langra daga.“
,,Gott að slaka á eftir skóla. Hvíldartímar í miklu uppáhaldi.“
,,Mér finnast æfingarnar hjálpa mér við að viðhalda góðum liðleika auk þess sem æfingarnar virkja allt aðra vöðva og liði en ég nota í mínu daglegu lífi sem ég aldrei gef gaum að. Slökunin hjálpar mér mikið við að leyfa huganum að öðlast ró.“
„... þakka þér innilega fyrir að hafa þessa tíma í hverri viku því þeir gera síðasta daginn í langri skólaviku mun skemmtilegri. Að mínu mati eru þeir nauðsynlegir þar sem ég er yfirleitt dauðþreytt eftir vikuna og vantar eitthvað til að hreinsa hugann, og bara einfaldlega til að fá að slaka almennilega á, það er eitthvað sem unglingar þurfa. Það gleymist..
Stundum kemur það fyrir að ég sofni eftir að við erum búin að gera allar yoga æfingarnar en þó nýt ég þess í botn að fá að slaka á.. hver gerir það ekki? 😃 Mér finnst að þeir mættu vera 2x viku, sérstaklega á mánudögum.“