Ný námskrá kynnt í Kvosinni
Ný námskrá kynnt í Kvosinni

Skólafélagið Huginn og skólayfirvöld boðuðu nemendur til kynningarfunda í Kvosinni í morgun þar sem þeim var kynnt sú nýja námskrá sem í smíðum er í skólanum og tekur gildi með nýjum nemendum á komandi hausti. Axel Ingi Árnason formaður Hugins setti fundina og Gísli Björn Gíslason forseti hagsmunaráðs stýrði þeim. Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari og Jón Már Héðinsson skólameistari kynntu námskrána og Valgerður S. Bjarnadóttir sem stýrt hefur námskrárgerðinni og Hildur Hauksdóttir sem sér um kynningar á henni sátu ásamt þeim fyrir svörum þegar fyrirspurnir urðu í lok kynningar.

Fyrri fundurinn var klukkan 9 fyrir nemendur í 3. og 4. bekk en sá seinni klukkan 10 fyrir nemendur 1. og 2. bekkjar. Talsvert var um spurningar í lok beggja fundanna. Hnigu þær nær allar að því hvort hið nýja fyrirkomulag yrði jafngott og jafngilt því stúdentsprófi sem nú er, eða hvort nýja kerfið gæfi afslátt af þeim kostum og gæðum sem núverandi kerfi hefur. Fram kom í svörum að hvergi er gert ráð fyrir afslætti á kröfum til stúdentsprófs, en meginatriði meðal annars þau að námsmarkmið verði augljósari, val nemenda meira og frelsi nemenda til að sníða námið að áhugasviðum sínum og styrkleikum meira en í núverandi kerfi.

.