- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Greiðsluseðlar vegna innritunargjalda fyrir skólaárið 2017-18 hafa verið sendir í heimabanka nemenda eða forráðamanna. Að þessu sinni verða greiðsluseðlar ekki sendir í pósti. Verðandi nýnemar fá einnig rafrænt bréf til staðfestingar á inngöngu þeirra í skólann og ýmsar hagnýtar upplýsingar.
Ef allir nemendur sem nú eru á skrá í skólanum skila sér að hausti verða nemendur um 770, sem er töluvert fleiri en síðasta skólaár. Þó voru færri nýnemar teknir inn en í fyrra. Það skýrist af því að brottfall úr skólanum er minna, og munar þar mestu um hversu vel fyrstu bekkingum gekk í vetur.
Töluverð umræða var í vetur um mikið álag á nemendur í nýrri námskrá sem tók gildi í haust og er ekki að efa að skólinn var krefjandi, einingafjöldi á önn var meiri en í fjögurra ára kerfinu og vinnudagurinn langur. En nemendur tóku námið föstum tökum og þessari áskorun af vinnusemi. Námsárangur nemenda var góður, það kom strax í ljós í miðannarmati í byrjun nóvember 2016 og skilaði sér einnig í námsmati báðar annir. Skólinn brást við auknu álagi með því að taka upp námsmatsdaga sem dreifðust yfir skólaárið og gaf nemendum tóm til að vinna að verkefnum. Á næsta skólaári verður álag þó minna en á liðnum vetri og vinnudagurinn styttri, auk þess sem á ný verður horfið að 40 mínútna löngum kennslustundum í stað 50 mínútna, sem reyndar voru í vetur.
Á haustönn var tekinn upp nýr áfangi, Nýnemafræðsla og forvarnir í umsjón námsráðgjafa og skólasálfræðings. Þessi áfangi er góð viðbót við það sem hefur verið í boði í stoðþjónustu skólans því þar er hægt að ná til allra nemenda á fyrsta ári með mjög skilvirkum hætti. Á vorönn var nemendum í fyrsta bekk boðið upp á einn tíma í viku í jóga og slökun og einu sinni í mánuði 40 mínútna djúpslökun. Auk þessa var einn tími á viku í núvitundarfræðslu. Mögulega hefur þessi nýbreytni, ásamt öflugri umsjón, áhugaverðu námi og góðri kennslu, hjálpað nemendum að kikna ekki undan álagi heldur eflast sem námsmenn.