- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Stytting náms til stúdentsprófs er víðast komin til framkvæmda. Menntaskólinn á Akureyri ákvað að fara aðra leið að þessu marki en aðrir. Stúdentsprófið frá MA verður til dæmis 210 einingar en ekki 200 eins og víðast hvar annars staðar og skólinn mun bjóða nemendum að velja leiðir til námsloka, í þrjú, þrjú og hálft eða fjögur ár. Stefnt er að því að innrita nemendur í þetta nýja kerfi nú á þessu ári.
Til þess að gera svolitla grein fyrir því hvað framundan er í MA, hverjar og hvernig breytingar verða á skólakerfinu, voru nokkrar spurningar lagðar fyrir stjórnendur skólans.
Hvaðan kemur hugmyndin um sveigjanleg námslok? Er hér farið að einhverri ákveðinni fyrirmynd?
Nei. Þessi hugmynd hefur þróast hér í skóla, það má segja að ákveðið hafi verið að fara þessa leið því ekki hentar öllum nemendum sami námstími. Hver skóli þarf auðvitað að útfæra námskrána á sinn hátt og við byggjum heilmikið á fyrri námskrá sem við tókum upp 2010. En við höfum líka átt í góðu samstarfi við Kvennaskólann í Reykjavík sem tók upp námskrá í þriggja ára kerfi 2009. Kvennaskólinn er bekkjaskóli eins og MA og við eigum margt sameiginlegt. Við höfum því heimsótt Kvennaskólann og fengið heimsóknir þaðan. Þar er einmitt gert ráð fyrir því að nemendur geti tekið námið á lengri tíma en þremur árum, en fyrirkomulagið verður ekki nákvæmlega eins. Hér munu nemendur geta tekið þá ákvöðrun fyrr á ferlinum að taka námið á lengri tíma en þrem árum.
Hvernig er ætlunin að rúma námsefni sem nægir til inngöngu í háskóla á þremur árum?
Einingarnar verða færri, þeim er fækkað um þrjátíu frá því sem nú er, úr 240 einingum í 210. Þrjátíu einingar jafngilda einingafjölda einnar annar núna og þess vegna þarf að laga námsefnið að færri einingum. Einingum fjölgar á önn, en þó minnst á fyrstu önninni, því þá eru nemendur að læra á nýjan skóla í nýju umhverfi með nýjum skólafélögum og takast á við nýjar kröfur sem fylgja því að skipta um skólastig. Áfangalýsingar eru í endurskoðun og reynt að gæta þess eftir föngum að vinna í hverjum áfanga endurspegli einingafjölda nemenda. Við búum svo vel að hafa endurskoðað áfangalýsingar samkvæmt núgildandi námskrá og notað þær undanfarin ár. Það þarf því að breyta þeim og laga þær að nýju skólaumhverfi en ekki semja þær allar að nýju. Hins vegar er rétt að leggja áherslu á að í þessu nýja kerfi er nemandanum falið meira vald yfir námi sínu en verið hefur, hann getur miðað það við þá stefnu sem hann hefur valið sér og útvíkkað nám sitt ef hann kýs svo.
Er hægt að sjá fyrir hverjir muni velja lengri tíma til stúdentsprófsins?
Nei. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það á þessari stundu hverjir taka námið á lengri tíma. Nemendur munu innritast á námsbrautir sem miðast við þriggja ára námstíma til stúdentsprófs. Það má þó telja mögulegt að nemendur sem velja það að vera í tímafreku félags- eða íþróttastarfi gætu kosið að dreifa náminu, eða jafnvel að þeir sem finna að þeir einhverra hluta vegna ráða ekki við svona mikinn námshraða veldu að lengja námstíma sinn í samráði við námsráðgjafa, skólastjórnendur og forráðamenn.
Hvaða námsbrautir verða í skólanum eftir breytinguna?Námsbrautirnar verða fjórar, náttúrufræðibraut, raungreinabraut, félagsgreinabraut og mála- og menningarbraut. Allar brautirnar hafa 96 eininga sameiginlegan kjarna, 70-79 eininga brautarkjarna og 35-44 eininga stýrt val. Samtals miðast hver braut við 210 einingar í heildina, eins og áður sagði. Auk þess verður hægt að brautskrást af tónlistarbraut, en þar er námsferillinn að miklu leyti sniðinn að hverjum og einum.
Er ekki hætta á að bekkjakerfið riðlist þegar nemendur skiptast að loknu fyrsta eða öðru ári í ólíka áfanga?
Það á alls ekki að þurfa að gera það. Það er gert ráð fyrir að nemendur fylgi sem mest ákveðnum bekk. Valið er að vísu meira en nú og því má búast við að nemendur verði þegar á líður í hópum eða bekkjum sem vinna að sameiginlegum áhugamálum, ekki ólíkt því sem verið hefur í efri bekkjum í núverandi kerfi, auk þess að vera í bekkjum sínum í grunngreinum.
Hvað verður um félagslífið sem hefur verið eitt helsta einkenni skólans?
Félagslífið hefur alltaf sett mikinn svip á skólastarf í Menntaskólanum á Akureyri og verður vonandi ekki breyting þar á. En það er mikilvægt að vera í samstarfi við nemendur og stjórn skólafélagsins um að flétta saman nám og félagslíf á farsælan hátt áfram. Þeir sem velja að taka mikinn þátt í félagsstarfi, geta mögulega fækkað einingum á önn og ýmist unnið þær upp að sumri eða lengt námstímann um eina eða tvær annir.
Hvernig er með hraðlínuna? Hverfur „krílabekkurinn“?
Nei. Námsleiðin hraðlína verður áfram í boði í nýju námsfyrirkomulagi í MA. Þessi námsleið er orðin órjúfanlegur þáttur af skólastarfinu og við höfum margra ára reynslu af því að taka á móti duglegum og námsfúsum nemendum beint úr 9. bekk.
Hafa þessir krakkar nægan þroska til að takast á við skemmri skóla. Verða þeir ekki félagslega utangátta?
Hraðlínunemendur hafa hingað til sýnt og sannað að þeir standa fyllilega undir þeirri áskorun að hefja nám í framhaldsskóla eftir 9. bekk. Námsárangur þeirra og skólasókn er með miklum ágætum. Rétt eins og aðrir nemendur taka þessir nemendur virkan þátt í félagslífi MA og setja skemmtilegan svip á skólabraginn. Reynsla okkar sem og niðurstöður úr mati sem fram hefur farið á námsbrautinni sýnir að þetta er góður kostur fyrir dugmikla og námsfúsa nemendur. Þessir nemendur munu því væntanlega ljúka stúdentsprófi 18 ára.
En stóra spurningin: Verður skólaárinu breytt?
Um þetta hefur lengi verið rætt og sitt sýnst hverjum. Nú hefur skólanefnd MA ákveðið að færa námstíma skólans í áttina að starfstíma annarra framhaldsskóla. Það er meðal annars vegna að það þykir hagkvæmara að breyta þessu á sama tíma og skólaskipaninni og þurfa því ekki að brjóta þetta upp á ný að nokkrum árum liðnum. Upphaf skólaársins verður ekki nákvæmlega sama og hjá öðrum skólum, en skólanefnd samþykkti tillögu skólameistara þar að lútandi. Nú er unnið að því að útfæra þessa breytingu, og allt stefnir að því að skóli verði settur um mánaðamót ágúst – september, nánar tiltekið 29. ágúst á þessu ári. (Drög að næsta almanaki)
Hvenær má ætla að upplýsingar um nýtt skólafyrirkomulag verði birtar á vef skólans?
Brautalýsingar verða birtar á vorönn, ekki síðar en í mars. Inntökuskilyrði á brautirnar, ásamt grófri lýsingu á hverri þeirra, verður birt í febrúar. Áfangalýsingar verða birtar síðar í vor eða í sumar. Kynning á nýja skólakerfinu fyrir væntanlega nemendur, forráðamenn þeirra og námsráðgjafa grunnskólanna verða á næstunni og verða nánar auglýstar.
Þau sem sátu fyrir svörum voru sviðsstjórarnir Valdís Björk Þorsteinsdóttir og Alma Oddgeirsdóttir, Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari, Hildur Hauksdóttir umsjónarmaður hraðlínu og Jón Már Héðinsson skólameistari.