- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Bjarni Jónasson heimspeki- og sögukennari hefur tekið saman nýtt kennsluhefti í áfanga um tilvistarheimspeki sem ber heitið „Ég er einungis spurult barn frammi fyrir æfintýrinu að vera til“. Aðspurður segir hann svo frá tilurð og efni heftisins:
“Ég fékk þá hugmynd árla vorannar 2018 að bjóða upp á valáfanga í heimspeki sem skyldi taka á tilvistarheimspeki og þeim bókmenntum sem setja mætti í þann flokk, með einum eða öðrum hætti. Svo fór að áfanginn var valinn af nemendum. Ég áttaði mig fljótlega á því að ekkert heildstætt námsefni væri til sem sneri að þessari grein heimspekinnar. Það voru útvarpserindi hér, örfáar blaðsíður þar og sömuleiðis töluvert á ensku, hvort sem var í mínu eigin bókasafni eða á bókasöfnum bæjarins. Ég fékk því þá hugmynd að sækja um styrk í Uglusjóði til þess að búa til kennsluhefti í tilvistarheimspeki og gekk það eftir. Kann ég Uglusjóði bestu þakkir fyrir það.
Ég hófst handa við að sanka að mér efni síðastliðið sumar, týna brot úr bókum héðan og þaðan og snara sömuleiðis einhverju yfir á íslensku. Eins og oft vill verða, óx vinnan mér um höfuð og mér varð fljótlega ljóst að þetta yrði meira og stærra en ég ætlaði mér í upphafi. Á endanum fór svo að ég skipti heftinu upp í tólf kafla, hvar fyrsti kaflinn er inngangur að tilvistarheimspekinni en aðrir kaflar taka á einstaka heimspekingum og rithöfundum, allt frá frægum tilvistarheimspekingum líkt og Nietzsche og Kierkegaard til „minna“ þekktari höfunda líkt og Miguel de Unamuno og Fernando Pessoa. Hver kafli hefur örstutt æviágrip, einhverju sem kalla mætti greiningu á tilteknu verki eða hugmynd höfunda. Undir lok hvers kafla eru svo frumtextar, flestir á íslensku og vonandi verður þeim öllum komið yfir á íslensku með tíð og tíma. Frumtextunum fylgja svo spurningar fyrir nemendur. Nafnið á heftinu, „Ég er einungis spurult barn frammi fyrir æfintýrinu að vera til“, fékk ég að láni úr útvarpserindi Sigurðar Nordal, sem gefið var út á bók árið 1966.
Áfanginn sem slíkur er svo smíðaður í kringum heftið, þar sem einn kafli, sem stundum telur tvo heimspekinga eða rithöfunda, er tekinn fyrir á einni kennsluviku. Frumtextar hvers kafla eru lesnir af nemendum í tímum og spurningunum svarað eftir bestu getu í litlum hópum.
Framtíðarsýnin er svo vitaskuld sú að þetta lifi, vaxi og dafni og heftið verði síðar að bók, ef það er ekki orðið svo nú þegar. Síðast kannski þakka ég sérstaklega starfsmönnum bókasafns MA fyrir hjálpsemi við að leita uppi efni fyrir heftið, efni sem ég vafalaust hefði aldrei fundið sjálfur.“