Nýtt merki MA
Nýtt merki MA

Nýtt merki Menntaskólans á Akureyri er nú komið fyrir almannasjónir og birtist fyrst hér á vef skólans. Dagný Reykjalín hannaði merkið.

Á fundi sínum 2. október síðastliðinn ákvað skólanefnd að tillögu skólameistara að nýtt merki skólans yrði tekið upp. Merkið hefur undanfarin misseri verið kynnt nemendum og starfsfólki og gestir skólans hafa einnig getað kynnt sér það og hugsanlega notkunarmöguleika þess frá því 17. júní síðastliðinn.

Dagný Reykjalín hönnuður á stofunni Blek hönnun gerði merkið að beiðni skólans. Endanleg útgáfa þess sýnir táknmynd af vakandi uglu með útbreiddan væng og vísar einnig til opinnar bókar og sýnir auk þess skammstöfunina MA. Merkið er hugsað sem tákn, sem notað verður á vef skólans, á bréfsefni, umslög og stúdentsprófskírteini, en á þeim verður auk þess vatnsmerki sem grunnur og það er teikning af húsi Gamla skóla. Þá er og hugmynd að nota einfalda gerð merkisins til að merkja ýmislegt fleira, ýmist í lit eða svart-hvítt.