Skólameistari sendi nemendum og starfsfólki eftirfarandi póst 20. september: 

Ágætu nemendur

Vegna frétta um skólahald í framhaldsskólum er rétt að taka fram að skipulag á skólahaldi verður óbreytt í MA eins og kynnt var í síðustu viku.

Vegna mikils fjölda smita undanfarna daga þurfa allir framhaldsskólar að skerpa á sóttvörnum. Samkvæmt tilmælum sóttvarnaryfirvalda er mælst til þess að bæði nemendur og kennarar beri grímur í kennslustundum, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Skólar „út á landi“ fá sendar grímur á næstu dögum og nemendur geta þá fengið grímur í skólanum en mega að sjálfsögðu koma með sínar eigin grímur kjósi þeir það. Enn er óvíst hversu lengi þessi tilmæli gilda en það fer eftir því hvernig gengur að ná utan um smit í samfélaginu. Við hvetjum alla til þess að fylgjast vel með fréttum og upplýsingafundum almannavarna næstu daga.

Leiðbeiningar um rétta notkun á grímum má finna hér.

Enn og aftur er lögð áhersla á að nemendur virði þau sóttvarnarhólf sem skólinn hefur skipulagt og gangi inn og út úr skólanum samkvæmt tilmælum. Þetta er vonandi tímabundið ástand og með því að vanda okkur og standa saman þá losnum við vonandi fljótt við grímurnar. Besta leiðin til þess að forðast smit er að sinna vel persónubundnum sóttvörnum, halda fjarlægðarmörk, líka í frímínútum, þvo sér vel og spritta.

Bestu kveðjur.

Jón Már Héðinsson

Skólameistari MA