- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Grunnskólanemendur heimsækja Menntaskólann á Akureyri í upphafi árs til að kynna sér námsframboð næsta skólaárs. Annað sem verðandi nýnemar horfa gjarnan til er hvernig félagslífinu í skólanum er háttað. Vegna skólakynninga þessa dagana í MA er vert að minna á starfsemi skólafélags skólans og helstu undirfélaga veturinn 2018-2019. Textinn hér að neðan er tekinn af heimasíðu skólafélagsins.
Huginn er skólafélagið í MA. Skólafélagið sér um félagslífið í MA, en félagslífið er einmitt það sem gerir MA að því sem hann er. Það er stjórn Hugins sem skipuleggur og heldur utan um þetta allt, en innan hennar eru átta embætti.
Femínistafélag Menntaskólans á Akureyri var stofnað árið 2014. Tilgangur Femínistafélags MA (FemMA) er að auka jákvæða umræðu um femínisma innan skólans sem utan. Félagið er opið öllum nemendum MA og starfsfólki.
Íþróttafélag Menntaskólans á Akureyri, ÍMA, er eitt elsta félag skólans. Á hverju ári eru keppnir í ýmsum íþróttum á milli bekkja. Á síðasta skólaári var til dæmis keppt í fótbolta, bandý og blaki.
LMA, leikfélag Menntaskólans á Akureyri, er eitt af elstu félögum skólans. Það er jafnframt stærsta og virkasta undirfélag Hugins. LMA hefur í áratugi sett upp árvissar leiksýningar og hafa vinsældir þess viðburðar aldrei verið meiri.
Málfundafélag Menntaskólans á Akureyri sér um þátttöku skólans í MORFÍs, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi og Gettu Betur sem er spurningakeppni íslenskra framhaldsskóla sem Ríkisútvarpið stendur fyrir. Félagið sér einnig um [ýmsa] málfundi.
Skólablaðið Muninn. Það eru ætíð mikil hátíðarhöld í MA þegar nýtt Muninsblað kemur út, en á hverri önn er gefið út eitt blað.
PríMA er dansfélag Menntaskólans á Akureyri. Í félaginu er lögð áhersla á það að hafa gaman, kynnast nýju fólki og auðvitað að dansa saman! PríMA er félag fyrir ALLA, stelpur jafnt sem stráka, busa jafnt sem böðla.
Lengi vel hefur verið virkur kór í MA, sem er þekktastur undir nafninu SauMA. Hann tekur þátt í ýmsum verkefnum, stórum og smáum.
Skemmtinefnd er ný nefnd sem á að sjá um kvöldvökur. Í henni sitja fimm meðlimir, formaður og fjórir meðstjórnendur.
Tóma er tónlistarfélag Menntaskólans á Akureyri. Félagið sér [m.a.] um jólatónleika á miðsal og hljómsveitakeppnina Viðarstauk/Stiðarvauk.
Fjölmörg önnur undirfélög eru starfandi á yfirstandandi skólaári. Nöfn þeirra og ítarlegri upplýsingar um starfsemi Hugins má finna á heimasíðu skólafélagsins www.huginnma.is.