Guðjón, fyrirlestur í Kvos
Guðjón, fyrirlestur í Kvos

Á föstudaginn flutti Guðjón Hreinn Hauksson kennari fyrirlestur í Kvosinni fyrir nemendur í náttúrufræðihluta Íslandsáfangans og fjallaði þar um tölvuleiki og staðalímyndir í tölvu- og myndheimum. Hann flutti þennan fyrirlestur einnig fyrir nemendur í samfélagshluta Íslandsáfangans fyrir skemmstu og hefur á undanförnum mánuðum farið og kynnt þessi mál fyrir kennurum og foreldrum grunnskólabarna í Eyjafirði.

Guðjón sagði að athygli sín á þessu efni hefði vaknað þegar hann fór að fylgjast með því hvernig ofbeldisfullu og klámfengnu efni er haldið að börnum í tölvuleikjum, sjónvarpi og netmiðlum. Hann sýndi jafnframt fjölmörg dæmi um það hvernig myndheimurinn og tónlistarheimurinn er notaður til að mata óvirkan áhorfendaskara á skilaboðum sem eru ekki talin góð og gild í samfélaginu og hve varnarlaust fólk er fyrir þessu.

Nemendur unnu að fyrirlestrinum loknum hugleiðingu um þessi mál, stöðu og sjálfsmynd ungs fólks, meðal annars með hliðsjón af grein jafnaldra þeirra, Árna Beinteins Árnasonar, sem birtist á vefmiðlum fyrir skemmstu. Í hugleiðingunum vekur athygli hve nemendur leggja mikla áherslu á það hlutverk foreldra að kenna börnum sínum að fóta sig í viðsjárverðum netheimum.

.