- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Tveir nemendur MA taka þátt í Ólympíukeppni í sumar, Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson í 2. bekk T í stærðfræði og Tryggvi Unnsteinsson í 3. bekk X í eðlisfræði. Það er ævinlega skemmtilegt þegar nemendum okkar vegnar svo vel á erfiðum og metnaðarfullum fræðilegum leikum að þeir komast í hóp þeirra sem fá að leggja land undir fót og keppa í fræðunum á heimsvísu.
Alþjóðlega Ólympíukeppnin í stærðfræði fer að þessu sinni fram í Höfðaborg í Suður-Afríku. Þetta er í 55. sinn sem keppnin er haldin, en hún mun standa frá 3. til 13. júlí í sumar. Með frammistöðu sinni í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna í vetur öðlaðist Jóhann Ólafur rétt á að vera í liði Íslands í keppninni. Fyrsta stærðfræðikeppni af þessu tagi var haldin í Rúmeníu árið 1955, en leitast er við að keppa sem víðast um heiminn. Í fyrstu keppninni voru þátttökuþjóðirnar sjö, en á okkar tímum eru keppendur frá um eða yfir 100 þjóðum.
Alþjóðlega Ólympíukeppnin í eðlisfræði fer að þessu sinni fram í Astana í Kasakstan og stendur yfir frá 13. til 21. júlí í sumar. Ólýmpíukeppni í eðlisfræði fór fyrst fram í Varsjá í Póllandi sumarið 1967 og var skipulögð sem árleg keppni með hliðsjón af stærðfræðikeppninni. Tvisvar hefur keppnin fallið niður svo þetta eru 45. eðlisfræðileikarnir, en þátttökuþjóirnar eru nú á annað hundrað. Það var í kjölfar Landskeppni framhaldsskólanna í eðlisfræði sem Tryggvi var valinn til að skipa lið Íslands í þetta sinn.
Megi þessir góðu nemendur njóta ferða á famandi slóðir og vegni þeim vel í viðfangsefnum keppnisferðanna.