Huginn merki
Huginn merki

Opnir dagar, sem ganga undir nafninu Ratatoskur, verða í MA á mánudag og þriðjudag. Kenndir eru tveir fyrstu tímarnir en dagskráin hefst klukkan 10.00 báða dagana og stendur fram eftir degi. Skólafélagið Huginn hefur sett saman viðamikla dagskrá námskeiða og fyrirlestra sem eru í umsjá nemenda og kennara og ýmissa utanaðkomandi aðila. Meginhluti dagskrárinnar er í húsum skólans en talsvert er þó utan veggjanna. Allt eru þetta viðfangsefni sem jafnan eru ekki á dagskrá venjulegs skóladags.

Að þessu sinni setur stjórn skólafélagsins Hugins skilyrði um að hluti þeirra punkta, sem nemendur safna á fyrirlestrum og námskeiðum séu svokallaðir hreyfipunktar. Ýmis námskeið, hlaup og gönguferðir eru í boði, til dæmis skíðaiðkun í Hlíðarfjalli, skautaiðkun, kynningar á jaðaríþróttum og gönguferðir. Annars er dagskráin sem fyrr segir afar fjölbreytt eins og sjá má á vef nemenda, muninn.is.