Pétur Örn Birgisson
Pétur Örn Birgisson

Pétur Örn Birgisson er stærðfræðikennari í MA og byrjaði aftur í haust eftir tveggja ára hlé frá kennslu sem hann nýtti til að  starfa sem smiður.

,,Það er fínt að vera kominn til baka. Ég komst að því að grasið er ekki endilega grænna hinu megin og að það eru kostir og gallar við öll störf. Kennslunni fylgir meira álag en líka fleiri stundir til að anda yfir kaffibolla. Kennslan er brilliant hvað sveigjanleika varðar og gott að geta stýrt vinnutímanum að miklu leyti. Á móti fylgir hún manni alltaf og hugurinn tæmist aldrei. En það er auðveldara að samræma hana fjölskyldulífinu, vera heima hjá veiku barni eða sækja á leikskólann.“

Pétur er í  75% kennslu í MA en er líka sundþjálfari. ,,Með þessu móti næ ég að ljúka vinnunni og undirbúningi á skikkanlegum tíma og hafa góðan tíma líka til að gera það sem ég vil.“

Fyrir utan vinnuna er Pétur að gera upp neðri hæðina í húsinu þeirra hjóna. ,,Það er gott að hafa hamar og skrúfjárn í höndunum, auðvelt að gleyma sér við það og gott að nota skrokkinn.“ Pétur hjólar í vinnuna og átti öflugt hlaupasumar. Hann hljóp ½ maraþon 2008, reimaði svo á sig skóna aftur í sumar og gerði sér lítið fyrir og hljóp heilt maraþon, reyndar ekki skráður tími sem er svolítið svekkjandi svo hann segist neyðast til að hlaupa það aftur. Hann stefnir líka á Fossavatnsgönguna í vetur.

Uppáhaldsmaturinn og uppáhaldstónlistin: ,,Ég er alæta og finnst eiginlega allur matur góður. Ég hef gaman af því að elda og finna rétti sem krefjast mikillar yfirlegu, hlusta á tónlist á meðan, á allt nema rapp!“