- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nú er stutt eftir af vorönninni í MA, vorannarpróf hefjast þriðjudaginn 25. maí. Próftöfluna má sjá á vef MA. Rétt er að benda á reglur um próf og prófhald, sem eru hér á vefnum.
Rétt er að ítreka að nemendur eiga að mæta tímanlega í próf svo próftíminn nýtist. Bannað er að hafa neitt meðferðis í próf annað en skriffæri og leyfileg hjálpargögn, þ.e. reiknivélar, orðabækur og þess háttar eftir reglum hverrar námsgreinar. Nemendur mega ekki hafa síma, tónspilara eða nein önnur tæki í vösum. Allar bækur, skólatöskur, yfirhafnir og annað slíkt skal skilja eftir utan prófstofu. Nemendur mega ekki safnast saman í Kvosinni eða í anddyri Hóla þegar þeir koma úr prófi. Nauðsynlegt er að tryggja frið og þögn í skólahúsunum meðan próf stendur.
Verði nemendur veikir á próftíma þarf að tilkynna það að morgni prófdags í síma 455-1555. Skila þarf vottorði til að öðlast rétt á að taka sjúkrapróf. Þau eru haldin strax og reglulegum prófum lýkur, þ.e. 7. júní, og einstaka próf þarf e.t.v. að halda síðar. Nemendur sem tilkynna veikindi á prófdegi og skila vottorði, eru sjálfkrafa skráðir í sjúkrapróf.
Endurtökupróf hefjast 8. júní, flest eru haldin 8. - 11. júní, en þau geta staðið til 15. júní. Gjald fyrir endurtökupróf er 8000 krónur, og þarf að greiða það áður en gengið er til prófs inn á reikning skólans 302-26-827, kt. 460269-5129.
Nemendur sem þurfa að taka endurtökupróf þurfa að skrá sig í þau og er hægt að gera það í afgreiðslu skólans eða senda námsráðgjöfum, brautarstjórum eða aðstoðarskólameistara póst. Ekki er þörf á að skrá sig fyrr en einkunnir hafa birst. Rétt er að geta þess að nemendur sem falla í einhverri grein sem telst vera undanfari áfanga á næsta/u skólaári/um en mæta ekki í endurtökupróf teljast vera fallnir á bekk og eru ekki skráðir í skólann. Það er því nauðsynlegt að hafa samband við námsráðgjafa eftir prófin ef eitthvað er óljóst með námsframvinduna.
Nemendur sem standast öll próf þurfa ekki að sækja um skólavist að nýju, heldur eru þeir sjálfkrafa skráðir í skólann. Hins vegar þarf að endurnýja umsóknir um heimavist.
Prófkvíðanámskeið er haldið í þessari og næstu viku á vegum náms- og starfsráðgjafanna í MA. Umsóknarfrestur um lengri próftíma rann út 4. maí.
Rétt er að geta þess að ekki er hægt að heimila nemendum að taka próf annarsstaðar nema í algjörum undantekningartilvikum.
Nemendur og forráðamenn þeirra eru hvattir til að hafa samband við aðstoðarskólameistara, námsráðgjafa eða umsjónarkennara ef eitthvað er óljóst varðandi próf og námsframvindu.