- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nú er liðinn mánuður síðan hópur frönskunemenda á þriðja ári fór til Parísar í páskafríinu undir dyggri leiðsögn Arnar Þórs frönskukennara og fyrrverandi Parísarbúa. Að mestu leyti samanstóð hópurinn af þeim fáu náttúrufræði- og eina eðlisfræðibrautarnema sem leggja stund á frönskunám í þriðja bekk en einnig voru þar nokkrar stúlkur af málabraut sama árgangs.
Komið var til Parísar upp úr hádegi þann fyrsta apríl. Gist var á hóteli á góðum stað í Latínuhverfinu, örstutt frá Notre Dame kirkjunni og Sorbonne háskólanum. Ferðin var ekki ætluð til afslöppunar en á hverjum degi voru skipulagðar skoðunarferðir.
Á öðrum degi ferðarinnar var trítlað upp tröppur Eiffelturnsins áður en haldið var upp að Sigurboganum og sprangað um frægasta breiðstræti Parísar, Avenue des Champs-Élysées. Dagana í kjölfarið var meðal annars farið að Sacré Coeur kirkjunni, þaðan var gengið um Montmartre hverfið niður í Rauða hverfið, fram hjá ástarleikjaverslunum, að hinni frægu Moulin Rouge. Í samræmi við skipulag Arnar Þórs var sú ferð að sjálfsögðu farin að morgni til. Einnig var farið Louvre safnið, höllina í Versölum og kirkjurnar tvær á Cité eyju, Notre Dame og Sainte Chapelle. Á síðasta deginum var farið að Nýja sigurboganum í La Défence fjármálahverfinu og loks hittist hópurinn um kvöldið og borðaði saman á fínum veitingastað.
Þetta er auðvitað bara það helsta en nógur tími var til að gera fleira. Margir nýttu þann tíma á stöðum á borð við Les Halles verslunarmiðstöðina og Rivoli stræti þar sem nóg var af fataverslunum. Einnig var hægt að rölta um skemmtileg hverfi borgarinnar, almenningsgarða, fara á góða veitingastaði og kaffihús, kíkja lítillega á næturlífið og svo margt fleira.
Að lokinni frábærri viku vöknuðu ferðalangar svo hressir, að vanda, á sunnudagsmorgni til að taka lestina á flugvöllinn og fljúga svo heim til Íslands.
Hlöðver Stefán Þorgeirsson 3TX sagði frá og útvegaði mynd.