Gömul og góð mynd af MA
Gömul og góð mynd af MA

Á vegum Þjóðminjasafns er unnið að könnun á lífi og starfi í Menntaskólanum á Akureyri. Nemendur fyrr og síðar eru hvattir til að taka þátt í henni. Að þessari könnun standa Fjóla María Jónsdótttir meistaranemi í þjóðfræði við HÍ og Ágúst Ó Georgsson fyrir hönd Þjóðminjasafns. Í kynningu á þessu verkefni segir m.a.:

Menntaskólinn á Akureyri (MA) á rætur sínar að rekja til Möðruvallaskóla, stofnaður 1880, og má jafnvel líta á hann sem arftaka hins forna Hólaskóla. Akureyrarskólinn öðlaðist full réttindi sem menntaskóli árið 1930 og tók þá upp sitt núverandi nafn. Ýmsir siðir og venjur hafa mótast í MA á þeim 85 árum sem liðin eru, en Þjóðminjasafn Íslands í samvinnu við Fjólu Maríu Jónsdóttur, meistaranema í þjóðfræði við Háskóla Íslands, sendir nú út spurningaskrá um þetta efni.

Tilgangurinn með spurningaskránni er að safna upplýsingum um daglegt líf, munnmæli, félagslíf, hefðir og samskipti í MA. Leitað er eftir minningum núverndi og fyrrverandi nemenda og hvetur Þjóðminjasafnið sem flesta til að taka þátt í könnuninni, óháð því hvort þeir hafi útskrifast eða ekki. 

Það efni sem berst verður notað til fróðleiks og rannsókna og varðveitt í þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands og menningarsögulega gagnasafninu Sarpur. 

Hægt er að velja um tvær leiðir til að svara spurningaskránni. Önnur leiðin er að svara beint á netinu með því að smella á þennan tengil. Hin leiðin er að opna meðfylgjandi PDF skjal og senda svörin í tölvupósti á agust@thjodminjasafn.is.   

Ekki er farið fram á að fólk svari undir nafni. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð. 

Frekari upplýsingar eru veittar í síma 530 2246 en einnig má senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is.

Nánari leiðbeingar um könnunina má sjá hér.