Frá afhendingu ratleikja
Frá afhendingu ratleikja

Nemendur í 1. bekk í náttúrulæsi hafa undanfarna daga unnið að því að gera ratleiki, sem ætlaðir eru nemendum grunnskóla. Að baki því er hugmyndin um að auka útikennslu á öllum skólastigum og jafnframt að tengja starf grunnskóla og framhaldsskóla.

Nemendum var skipt í hópa sem ýmist völdu eða fengu úthlutað grunnskólum og áttu að gera ratleiki fyrir þá, hver hópur einn skóla, og leikirnir skyldu hafa fræðslugildi. Markmiðið var að grunngreinar náttúrulæsi, jarðfræði, náttúrufræði og íslenska, væru efni ratleikjanna. Nemendur fóru um hverfi skólanna og völdu staði fyrir þrautir og spurningar, sömdu síðan verkefnið og gengu sem best frá því. Því næst voru ratleikirnir prófaðir, þannig að hópum var skipt og hluti hópfélaga lagði leikina fyrir félaga úr öðrum hópi. Síðan var verkefnið vegið og metið, gallar sniðnir af og gengið frá leikjunum.

Haft var samband við grunnskólana og beðið um að fulltrúar þeirra kæmu í heimsókn og tækju við leikjunum, og það tókst afar vel. Fulltrúar allr skólanna komu. Þeim var gerð grein fyrir verkefninu og óskað eftir frekari samvinnu við þá, beðið um athugasemdir og ábendingar um það hvað betur mætti fara svo leikirnir verði fræðandi og gagnlegir fyrir grunnskólakrakka auk þess að vera fróðleikur á vettvangi fyrir náttúrulæsinema.

Þetta var fyrsta tilraun til þessarar tegundar verkefna í náttúrlæsi og verður haldið áfram og þá er einboðið að bætist í ratleikjasafn skólanna eftir því sem annirnar líða.

Á annarri myndinni hér fyrir neðan eru fulltrúar grunnskólanna (fulltrúar Naustaskóla voru nemendur sem sjást á hópmyndinni, efst til vinstri) en á hinni eru þeir ásamt nemendum í nátúrulæsi sem afhentu þeim töskur með leikjunum.

Ratleikir afhentirRatleikir afhentir