Hljómsveit Rauðu myllunnar
Hljómsveit Rauðu myllunnar

Mikil tónlist er þessa dagana í skólanum og í tengslum við hann. Rauða myllan hefur gengið fyrir fullu húsi, Kór MA söng í gær og í gærkvöld var Viðarstaukur.

Rauða myllan er sýnd í Sjallanum og þar verða tvær sýningar í vikunni, 30. apríl og 1. maí. Stutt er í að verði uppselt á báðar sýningarnar. Þetta er eitthvert besta ár í sögu LMA í langan tíma. Aðsóknin afskaplega góð og viðtökur um umsagnir frábærar. Hljómsveit Rauðu myllunnar kom í Kvosina í löngu frímínútum og lék tónlist úr syningunni og hluti leikendanna tók eitt lag.

Í gær söng Kór MA á tónleikum á Sal í Gamla skóla undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur. Það voru skemmtilegir og góðir tónleikar, bæði hjá kór og einsöngvurum. Stundum er kórinn kenndur við uppruna sinn, SauMA, - Söngfélag MA, og hefur lengi komið fram á árshátíð skólans og á vortónleikum.

Í gærkvöld var svo Viðarstaukur, hljómsveitakeppni, þar sem fram komu 12 atriði og þótti takast allvel.