Menntaskólinn á Akureyri á sína fulltrúa í jólabókaflóðinu þetta árið. Arnar Már Arngrímsson íslenskukennari sendir frá sér unglingabókina Sölvasaga unglings. Sögur útgáfa gefa bókina út.  Hildur Hauksdóttir sendir frá sér bókina Sagan af ömmu, - örlög ráðast heima hljótt -. Grenndargralið gefur hana út. Sölvasaga Arnars Más var í gær tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Sölvasaga segir frá Sölva, 16 ára Reykvíkingi sem er tilneyddur að eyða sumrinu austur á landi hjá ömmu sinni. Á bókarkápu segir: ,,Sölvi er kvíðinn unglingur úr Reykjavík sem er sendur austur á land í sveit til ömmu sem hann þekkir varla. Nú á dögum eru einungis fíklar og alkar sendir í sveit og hann er hvorugt. Svo af hverju er hann píndur í sveitina? Opinbera skýringin er sú að foreldarnir þurfi að redda fjárhagnum – pabbi ætlar á sjó en mamma til Noregs. En Sölvi hefur líka ýmislegt á samviskunni, og nú á að kippa því í lag með því að láta hann púla í sveitinni. Og svipta hann netinu!

Sölvi fær gamla herbergið hans pabba þar sem ekkert hefur breyst frá 1985. Mun hann finna sig umkringdur rispuðum vínilplötum og rykföllnum bókum? Hafa plaköt af David Bowie og Jóni Páli Sigmarssyni eitthvað að segja honum? Mun hann ná að brúa bilið milli ruglsins í höfðinu á honum og veruleikans í líki Arndísar? Munu rapptextarnir hans ná einhverju flugi eða færi best á að brenna allt draslið? Er hugsanlegt að hann snúi til baka úr þessari tímavél í lok sumars nýr og betri maður? Mun hann kannski ekkert snúa aftur yfirhöfuð?“

Hildur Hauksdóttur enskukennari gefur út bók um ömmu sína, Sagan af ömmu, - örlög ráðast heima hljótt -. Í formála bókarinnar segir: ,,Sagan af ömmu er ígrundun og atlaga að því að skilja betur ömmu mína, Helgu Guðrúnu Sigurðardóttur, konurnar í lífi hennar og fólkið sem kom fótunum undir þessa þjóð á 20. öldinni. Amma mín fæddist í Eyjafirði árið 1927. Hún missti móður sína og síðar fósturmóður ung að árum og þegar hún var unglingsstelpa fór hún sjálfviljug í fóstur. Síðar rak amma heimili á Akureyri, ól upp fimm börn auk þess sem hún fór að vinna úti, þá komin á miðjan aldur. Amma er rauði þráðurinn í sögunni en jafnframt reyni ég að draga upp svipmynd af tíðarandanum, bæjarbragnum á Akureyri og uppvaxtarskilyrðum alþýðunnar á millistríðsárunum. Þegar íslenska þjóðin braust úr fjötrum fátæktar og skömmtunar með vinnusemi og dirfsku til samfélags sem einkenndist af velmegun.“

Arnar Már hefur heimsótt fjölda grunnskóla undanfarið og lesið upp úr bókinni, hann hefur t.d. farið í Hrafnagilsskóla, Naustaskóla og Síðuskóla á Akureyri og nokkra skóla syðra. Í næstu viku munu Arnar og Hildur lesa úr bókum sínum í Kvosinni, meðal annars fyrir nemendur í 1. bekk.

Það er ekki á hverjum degi sem kennarar skólans steypa sér út í jólabókaflóðið. Skólinn óskar þeim til hamingju og jafnframt velgengni í jólaösinni.

Hildur Arnar Már
Hildur bók