Rokkspinning í 2X
Rokkspinning í 2X

Fjölbreytni í kennslu- og námsháttum er í hávegum höfð, en þó er svolítið óvenjulegt, svo ekki sé tekið dýpra í árinni, að íslenskukennsla fari fram á vaxtarræktarstöð.

Föstudaginn 13. nóvember teymdi Stefán Þór Sæmundsson íslenskukennari umsjónarbekkinn sinn, 2.X, í afkima Vaxtarræktarinnar. Þar stjórnaði hann rokkspinningtíma og lét nemendur svitna ærlega. Þetta var vissulega tilbreyting frá málsögu og norrænni goðafræði en íslensk tunga var þó í hávegum höfð og voru nöfn rokklaganna þýdd jafnóðum. Kúrekar heljar (Cowboys from hell) og Árás hins kolklikkaða axarmorðingja (The attack of the mad axman) voru lög sem féllu vel að föstudeginum þrettánda og hið sama má segja um Niðdimma nótt (Black night). Þá var gott að kalla til engla (I wish I had an angel) og vona að dag einn tæki sólin upp á því að skína á ný (Oneday the sun will shine on you). Að lokum var farið upp um fjöll og firnindi (Over the hills and far away) og það voru þreyttir og sveittir nemendur sem skreiddust í skólann eftir þennan tíma.

.