Saga MA, fjórða bindi, kom út í dag. Skólameistari opnaði kassa og tók upp fyrstu eintökin. Hann afhenti þau Sigurði K. Harðarsyni og Gesti Jónssyni hjá Kaupþingi, sem studdi útgáfuna og Hermanni Jóni Tómassyni fulltrúa bæjarstjórnar. Viðstödd þennan atburð var ritnefnd bókarinnar og höfundar efnis.

Saga MA kom út í þremur bindum í tilefni að 100 ára afmæli skólans árið 1980, þegar eitt hundrað ár voru liðin frá endurvakningu hins norðlenska skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880 og fimmtíu ár voru liðin frá því skólinn fékk leyfi til að brautskrá stúdenta 1930. Fjórða bindið spannar söguna frá því um 1980 fram um 2005, eða næsta aldarfjórðunginn eftir fyrstu bindin þrjú.

Ritstjóri þessa bindis Sögu MA er Jón Hjaltason en rifnefnd ásamt honum skipuðu Jón Már Héðinsson skólameistari, Sigríður Steinbjörnsdóttir, Úlfar Hauksson og Valdimar Gunnarsson. Myndaritstjórn annaðist Sverrir Páll Erlendsson og Lára Ólafsdóttir gerði skrár. Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari safnaði efni til sögunnar og ritaði drjúgan hluta hennar.

Fjöldi manna hafði tryggt sér eintak fjórða bindis Sögu MA með áskrift og verður öllum, utan Akureyrar, send bókin í pósti í dag en áskrifendum innan bæjar verður færð bókin um helgina.

Við þetta tækifæri var frá því greint að Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari hefði lokið við handrit að bók, sem nefnast mun Lifandi húsið, og fjalla í máli og myndum um Gamla skóla. Afhenti hann Jóni Má handritið, en í bókinni mun vera fjallað um það starf sem fram hefur farið í húsinu en einkum þó það líf sem þar hefur verið lifað, þá sem í húsinu hafa búið, svo dæmi sé tekið.

.