- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendur og starfsmenn MA deila upplifunum sínum af námi og kennslu í samkomubanni með lesendum ma.is.
Flestum gengur ágætlega að sinna náminu. Mesta áskorunin felst í að skipuleggja sig og halda sig síðan við skipulagið.
Ókosturinn við stöðu mála er m.a. að hafa mögulega ekki alltaf nægilegan sjálfsaga. Sumum finnst sem skilaboðin komi úr mörgum áttum frá kennurum og því getur farið talsverð orka í að tryggja að nemendur missi ekki af neinu. Aðrir upplifa stresss tilfinningu sem birtist þannig að þeir reyna að keppast við að klára allt um leið og skilaboðin frá kennaranum koma. Nokkrir í hópnum hafa eðlilega áhyggjur af námsmati og útskrift ef ástandið dregst á langinn. Þá má benda á að aðstæður nemenda eru mismunandi. Margir fá gott næði og aðhald heima fyrir, aðrir eru komnir í sveitaverk og á sumum heimilum eru mörg yngri systkini heima og þannig minna næði. Mikilvægt er fyrir kennara að hafa þetta í huga.
Kostirnir við fjarnámið eru þónokkrir m.a. að fá að búa til sína eigin stundatöflu. Að geta sofið lengur út á morgnana þykir sumum vera mikill kostur og að einhverju leyti verða verkefnin þá viðráðanlegri. Í hópi kennara eru nokkrir mjög duglegir við að halda nemendum við efnið og senda þeim uppörvandi tölvupósta. Í þessum hópi eru t.d. Hólmfríður og Unnar íþróttakennarar nefnd sérstaklega af þakklátum nemendum.
Við samantekt þessa, sem unnin var á fjarfundi, höfðu nokkrir nemendur á orði að þetta væri fyrirkomulag sem myndi æfa þau undir háskólanám og hvernig þau þyrftu að læra og skipuleggja sig sjálf þar. Á fundinum deildu þau með hverju öðru góðum ráðum eins og að skrifa á post it miða allar upplýsingar sem kennarar senda til þess að hafa þær fyrir augunum. Að loknu góðu dagsverki megi svo stroka út af "to do" listanum.