- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nýlokið er í Kvosinni í MA samstöðufundi þar sem nemendur MA og VMA komu saman og lýstu stuðningi við baráttu kennara fyrir leiðréttingu launa. Fundurinn var afar fjölmennur og fyrir hópum nemenda fóru Hólmfríður Lilja Birgisdóttir formaður Þórdunu, nemendafélags VMA og Bjarni Karlsson formaður Hugins, skólafélags MA. Allmargir aðrir nemendur tóku til máls, spurðu eða gerðu grein fyrir skoðunum sínum.
Fram kom að nemendur styddu baráttu kennara fyrir leiðréttingu launa sinna en um leið vonuðust þeir til að leysa mætti deiluna án þess að grípa þyrfti til verkfalls. Fram kom að verkfall, sérstaklega ef það drægist á langinn, hefði alvarleg áhrif á nám nemenda og raskaði því jafnvel svo að fyrirsjáanlega myndu margir flæmast frá námi. Nemendur í verknámi lýstu því að verkfall þýddi einfaldlega að nám þeirra á önninni væri ónýtt, það yrði aldrei hægt að ljúka verklegum hlutum náms með skammtímalausnum, eins og í fyrri verkföllum hefði verið reynt að ljúka bóklegum þáttum. Ef kennarar hins vegar yrðu þvingaðir til að grípa til verkfalls myndu nemendur styðja þá til aðgerða af því að laun þeirra yrði að leiðrétta. Einn mælandinn tók dæmi og sagði að sér þætti fáránlegt að réttindalaus skólanemandi skyldi fá hærri laun fyrir að steikja hamborgara á skyndibitastað en kennari með mikla menntun sem sæi um að fræða fólk og koma því til manns.
Myndin sýnir hluta fundarmanna.