Rúmir sjö áratugir eru síðan greinin ,,Jólaleyfi
Rúmir sjö áratugir eru síðan greinin ,,Jólaleyfi" birtist á prenti

 Jólahugleiðingin birtist í skólablaði MA í desember árið 1948.

Það var komið fram yfir miðnætti. Veðrið var kyrrt, en svalt. Ég stóð úti við borðstokkinn ásamt fleiri nemendum úr M.A., sem voru að fara heim til sín til þess að vera þar um jólin. Þarna voru líka krakkar, sem ætluðu að vera í bænum yfir hátíðarnar, en voru komnir til þess að kveðja þá, sem heim fóru. Við stóðum þarna, töluðum saman og horfðum á fólkið, sem streymdi upp og niður landgöngubrúna. Við horfðum líka á verkamennina, sem voru þarna að vinnu. Þarna var verið að setja heilan bíl á land, og annar átti víst að fara um borð á eftir, og síðan átti skipið að fara. Þegar blásið var til brottferðar, kvöddum við vini og kunningja, sem flýttu sér í land á síðustu stundu. Svo rann skipið frá bryggjunni, þar sem þeir stóðu og veifuðu til okkar. Við veifuðum einnig, þangað til þeir voru horfnir út í náttmyrkrið. Þá sáum við aðeins ljósin í bænum, sem spegluðu sig í lygnum sjónum. Það var einnig um nótt, sem ég kom heim. Ég stóð uppi á þilfari síðasta hálftímann áður en við komum að landi og sá ljósin í litla, kæra þorpinu stöðugt færast nær.

Þegar heim kom, lagði ég mig upp í rúm og svaf til hádegis. Næstu daga hjálpaði eg mömmu við jólaundirbúninginn, þessi sömu verk, sem við höfum unnið fyrir jólin frá því að ég fyrst gat farið að hjálpa henni til, en alltaf veita mér svo mikla ánægju. Við kepptumst við að búa til konfekt, laufabrauð og fleira góðgæti, sem við búum aðeins til fyrir jólin. Pabbi bjó til jólatré úr eini, sem hann festir alltaf utan á sama, gamla tréstautinn, sem þess á milli er geymdur niðri í kjallara. Svo rann aðfangadagurinn upp, þegar við lögðum síðustu hönd á undirbúninginn. Klukkan 4 var því lokið. Hvarvettna voru nýþvegin og strokin gluggatjöld og dúkar, og gólfin voru gljáfægð. Í borðstofunni var yndislegur ilmur af jólatrénu, sem nú stóð skreytt úti við annan gluggann. Nú hafði ég fataskipti og hjálpaði litlu systrum mínum í jólafötin og knýtti á þær nýju hárborðana. Klukkan 6 fórum við til kirkju. Úti var sannkallað jólaveður, og snjórinn marraði svo skemmtilega undir fótum okkar. Fólkið streymdi til kirkjunnar í smáhópum, stjörnurnar skinu, jólaklukkurnar hringdu, og friður ríkti yfir öllu. Svo þegar söngflokkurinn byrjaði að syngja „Heims um ból“, fann ég til þessa hátíðleika, sem alltaf grípur mig á hverju aðfangadagskvöldi. Ótal minningar frá því, er ég var lítil og fór til aftansöngs með pabba og mömmu, rifjuðust upp fyrir mér. Þessar minningar, sem þið eigið öll um það, þegar þið voruð lítil og sátuð á pabbakné í kirkjunni um jólanótt og heyrðuð prestinn lesa jólaguðspjallið og söngflokkinn syngja ,,Heims um ból“. Og þegar þið gátuð í huganum séð Ijómandi englaskara svífa þarna uppi í dimmbláum, stjörnuskreyttum himninum. Þá voru jólin mikið skemmtilegri en núna, því að þá voruð þið lítil, en nú eruð þið stór, og það er eins og eitthvað hafi horfið úr jólunum síðan þá. En samt eru jólin yndisleg.

Eftir messuna hittum við vini og kunningja, sem við óskuðum gleðilegra jóla. Allir voru brosandi, glaðir og góðir. Svo kom jólamaturinn heima — og uppþvotturinn á eftir. En þetta kvöld voru allir viljugir að hjálpa til, og enginn fýlusvipur á neinum, þó að nú þyrfti að fara með eitthvað niður í kjallara, — því að nú voru jól. Þegar allt var komið í lag í eldhúsinu, var kveikt á jólatrénu. Rafljósin voru slökkt, og nú var stofan aðeins lýst af litlu kertunum á trénu og tveim stórum kertum á orgelinu. Ég settist við orgelið og byrjaði að spila jólasálma og gömul jólalög, sem spiluð eru enn á hverjum jólum og aldrei má spila nema þá. Fullorðnir og börn tóku saman höndum og leiddust kringum jólatréð, og við sungum öll. Ég var hamingjusöm, þar sem ég sat á þessum gamalkunna stað við orgelið og sá skugga fólksins líða yfir nótnabókina fyrir framan mig. Það var svo gaman að vera aftur heima. Þegar kertin voru brunnin út, var komið með jólagjafirnar, sem allar höfðu verið látnar í stóra tösku og geymdar þar fram á þessa stund. Þegar dáðst hafði verið að jólagjöfunum, fengum við kaffi, mjólk og kökur og epli á eftir, en síðan var farið að hátta. Þannig leið þetta jólakvöld, og svona hafa flest jólakvöld heima verið frá því að ég man eftir mér. Jóladagana og flesta daga fram yfir nýár vorum við í sífelldum heimboðum eða fengum gesti, og oft var glatt á hjalla. En nú var horfin þessi helgi, sem hvíldi yfir aðfangadagskvöldinu og aldrei er nema þá. Auðvitað var glaðast á hjalla, þegar eintómt ungt fólk var saman komið. Þá var stundum farið í „pantleik“ og út að telja stjörnurnar — og svo komu nokkrir kossar á eftir bak við dyratjöldin. Og svo var spilað fram eftir allri nóttu. Á nýársdag fórum við systurnar, vinstúlka mín og mamma í heimboð til fólks, sem á heima yzt í þorpinu. Mikill snjór var, og við þurftum allar að ganga í halarófu eftir mjórri slóðinni, til að sökkva ekki í kaf. Þarna við veginn eru tveir litlir torfbæir, sem gægðust upp úr snjónum, sem hlaðizt hafði í kringum þá. Tekið var að rökkva og búið var að kveikja þar inni. Birtan úr litlu gluggunum glampaði á fönninni fyrir utan. Þegar við komum á ákvörðunarstaðinn, var okkur tekið með kostum og kynjum, og dvöldum við þar lengi dags í bezta yfirlæti.

Svona liðu flestir dagar jólaleyfisins, með skemmtunum fram á miðjar nætur, og síðan var sofið fram á miðjan dag. En brátt kom að því, að ég varð að fara aftur í skólann. Og dimman skammdegismorgun vaknaði ég við hringingu og þann blákalda veruleika, að jólaleyfinu var lokið.

Amica.

 

Heimild: Muninn 21. árgangur, 3. tbl.