- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Það var glaðbeittur hópur sem steig upp í rútu að morgni námsmatsdags í síðustu viku. Hópurinn samanstóð af nemendum sviðslistabrautar, kjörnámsbrautar í tónlist og 3A, lokaári mála- og menningarbrautar. Brunað var beint í höfuðborgina, alla leið niður á Hverfisgötu þar sem Álfahöllin, Þjóðleikhúsið okkar allra, beið með allar gáttir opnar.
Björn Ingi Hilmarsson fræðslustjóri leikfélagsins tók vel á móti hópnum að norðan og leiðsagði um alla króka og kima. Byrjað var í Þjóðleikhúskjallaranum sem hefur fengið andlitslyftingu og þar svaraði Björn Ingi spurningaflóði áhugasamra nemenda um allt er viðkemur húsinu og starfsemi þess. Að því loknu héldu nemendur í skoðunarferð og komu m.a. við í saumastofunni, á smíðaverkstæðinu og skoðuðu rýmið undir aðalsviðinu sem gegnir lykilhlutverki í sýningunni sem nemendur sáu seinna um kvöldið. Æfingaaðstaðan var líka skoðuð, stóri salur Þjóðleikhússins og sviðsmynd Rómeó og Júlíu. Í stuttu máli sagt fengu nemendur að kynnast því hvernig leiksýning verður til og hversu ótrúlega margir koma að stórum sýningum leikhúsanna. Á ferð sinni um ranghala hússins urðu á vegi nemenda leikhússtjórinn Magnús Geir sem heilsaði upp á krakkana, ótalmargt starfsfólk leikfélagsins og fyrir skemmtilega tilviljun hittu krakkarnir Sturlu Atlas á stóra sviðinu þar sem hann undirbjó sig fyrir kvöldið. Hann tók loforð af hópnum að taka nú virkan þátt í sýningunni og láta sitt ekki eftir liggja að skapa stemmingu um kvöldið.
Eftir Þjóðleikhúsið fengu krakkarnir frjálsan tíma til að næra sig og ná andanum áður en haldið var aftur í leikhúsið til að hitta ástsjúka og sjálfhverfa parið sem ferðin snérist jú um.
Rómeó og Júlía er 3ja tíma veisla sem óhætt er að mæla með. Kraftmikil sýning uppfull af leik, tónlist, dansi, taumlausri gleði, botnlausri sorg, fjörugum slagsmálum, bráðri hættu og öllu því sem fylgir að vera ungt og ástfangið fólk. Nemendur stóðu við gefið loforð og settu svip sinn á uppfærslu kvöldsins með virkri þátttöku.
Heimleiðin var svolítið löng en flestir náðu að lúra eftir að hafa náð tryllingnum eftir sýninguna niður. Nemendur sem fóru í þessa ferð, 57 talsins, voru allir til stakrar fyrirmyndar allan tímann. Nú þegar við erum farin að sjá fyrir endann á mesta kófinu verður vonandi hægt að færa nám og kennslu oftar út fyrir veggi skólastofunnar, til dæmis með því að upplifa hlutina á eigin skinni. Vala Fannel fararstjóri stýrir sviðslistabrautinni í MA og reyndist hún ómetanleg við að greiða götu okkar svo leikhúsferð nemenda yrði að veruleika. Bestu þakkir fær starfsfólk Þjóðleikhússins fyrir frábærar móttökur og fyrir að glæða námið lífi.
Hildur Hauksdóttir.
Myndir frá ferðinni suður yfir heiðar má finna á fésbókarsíðu skólans.