Lið MA hlaut silfurverðlaun á Evrópumóti skólafólks í leikspuna sem fram fór í Vínarborg í vikunni sem leið. Í liðinu eru Anna Hafþórsdóttir, Gísli Björgvin Gíslason, Gréta Kristín Ómarsdóttir og Valur Sigurðarson. Liðið kom heim frá Vín um helgina og kom með verðlaunagripinn til skólameistara í morgun.

Gréta sagði að lagt hefði verið af stað frá Akureyri sunnudaginn 25. maí og komið til Vínarborgar um hádegi á mánudaginn og þá tekið við opnunarhátíð í TAG-leikhúsinu í Vínarborg (Theater An Der Gumpendorfer Strasse). "Þar fórum við með einræðu úr Ödipusi konungi eftir Sófókles, sungum Hesta-Jóa og klöppuðum MA-klappið í kynningunni okkar svo allir héldu að við værum þaulreynd og hámenntuð."

Lið MA, sem kallaði sig Gleðibomburnar, keppti í A-riðli með Lettlandi, Litháen, Noregi I og Sviss og varð næststigahæst í riðlinum. "Við mættum Austurríki I í 8 liða úrslitum, Austurríki II í undanúrslitum og kepptum loks við Svíþjóð í úrslitum og töpuðum með einu stigi," sagði Gréta.

Svona ferð kostar peninga. Menntaskólinn tók þátt í ferðakostnaði, Samfélags og menningardeild Akureyrarbæjar veitti ríflegan styrk til ferðarinnar, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, sem sá um landskeppnina á haustönninni, kostaði fararstjórana og menntamálaráðuneytið tók einnig þátt í kostnaðinum. Austurríska menntamálaráðuneytið stóð undir kostnaði fæðis og gistingar. Undirbúningur keppninnar hefur verið í gangi í um 2 ár en þetta er í fyrsta skipti sem hún er haldin. Hugsanlega verður hún hefð, það er aldrei að vita nema Gleðibomburnar keppi næst í Svíþjóð.

Gréta vildi að endingu koma þökkum til allra sem stuðluðu að því að þessi ferð var farin og ekki síst fararstjórunum, Ásu Hauksdóttur og Ólafi Guðmundssyni fyrir frábæran stuðning í ógleymanlegri ferð. Menntaskólinn á Akureyri óskar þessu unga afreksfólki til hamingju með árangurinn.

.