Í þessari viku hefjast sjálfboðastörf nemenda í 4. bekk í MA. Sjálfboðastörfin eru hluti af lífsleikniáfanga sem allir nemendur í 4. bekk Menntaskólans á Akureyri taka á sinni síðustu önn í skólanum, nú 184 nemendur og hafa aldrei verið fleiri. Markmiðin með sjálfboðastörfunum eru þau m.a. að nemendur átti sig hvar þeir geti gert gagn og lagt sitt af mörkum samfélaginu, að þeir kynnist og fái tækifæri til að sinna sjálfboðastörfum og að þeir kynnist að eigin raun einhverjum tilteknum málaflokki innan velferðarþjónustunnar hér í bæ.

Nemendur kynna sér og leggja ýmsum málaflokkum lið. Má þar nefna verkefni tengd Akureyrardeild Rauða krossins, Rósenborg - ungmennahúsi, Búsetudeild Akureyrarbæjar (sambýli, félagsstarf aldraðra, skammtímavistun, Hæfingarstöðin o.fl), aðstoð við skíða- og sundkennslu fatlaðra barna, samstarfsverkefni við Öldrunarheimili Akureyrar, leikskóla Akureyrar og svo mætti lengi telja.

Stærsta verkefnið sem nemendur taka þátt í á þessu skólaári er verkefnið Kynslóðir mætast en það er samstarfsverkefni MA, Öldrunarheimila Akureyrar, Eyjafjarðarprófastsdæmis, Akureyrarkirkju og Glerárkirkju. Verkefnið hófst árið 2006 og markmið þess er að auka samskipti og skilning á milli ungs fólks og aldraðra.  Upphafsdagur verkefnisins er á morgun, 11. mars kl. 14.00 en þá hittast þátttakendur, 80 talsins (40 nemendur og 40 eldri borgarar) í samkomusalnum í Hlíð. Þar verður þátttakendum skipt í fjögurra manna hópa sem vinna verkefni sem felst í því að stjórna Akureyrarbæ í eina viku og með því velta fyrir sér hvaða ákvarðanir hópurinn vilji taka og/eða hverju þau vilji breyta. Nemendur sjá síðan um að kynna niðurstöðu hópavinnunnar.

Að þessari samveru lokinni eiga hóparnir að hittast tvisvar og gera eitthvað skemmtilegt saman.

.