Í tölvutíma
Í tölvutíma

Undanfarnar vikur hafa nemendur í þriðja bekk MA sinnt sjálfboðastörfum sem hluta af námi sínu í lífsleikni. Störfin hafa verið af ýmsum toga en fjölmennustu hóparnir hafa sinnt verkefnum í samstarfi við Öldrunarheimili Akureyrarbæjar, Fræðslunefnd Félags eldri borgara á Akureyri og íþróttafélögin Þór og KA.  Markmiðið með sjálfboðastörfunum er að efla borgaravitund nemenda og að þeir öðlist skilning á því hvernig hægt er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið með þátttöku í slíkum störfum.

Sem dæmi um verkefni má nefna að

  • Um 40 nemendur hafa aðstoðað eldri borgara við að tileinka sér ýmis undur internetsins og samskiptaforrita svo sem Facebook, Instagram og Twitter.
  • Rúmlega 30 nemendur tóku þátt í verkefninu Kynslóðir mætast sem er samstarfsverkefni MA og Öldrunarheimila Akureyrarbæjar. Verkefnið, sem var nú haldið í tíunda sinn, felst í því að nemendur og eldri borgarar hittast í nokkur skipti og gera sér glaðan dag saman.
  • Stór hópur nemenda tók að sér ýmis aðstoðarstörf á Goðamóti Þórs.
  • Vaskur hópur nemenda tók til hendinni á blakmóti á vegum KA.
  • Einnig má nefna samstarf við Rauða krossinn, geðverndarmiðstöðina Grófina, skammtímavistun og skólavistun fatlaðra barna í Þórunnarstræti, Hæfingarstöðina og fleira.

Um þetta starf má segja að það hefur verið nemendum ánægjulegt og lærdómsríkt og eldri og heldri borgarar hafa sérstaklega rómað þetta framtak, alúð og vinsemd unga fólksins og þá ekki síst vinsamlega tilsögn í því að nýta sér möguleika tölvuheimsins auk þess að sitja og spjalla við kaffiborð og hlusta á eitthvað fallegt og skemmtilegt í leiðinni.

Bragi V. Bergmann tók myndir í Hlíð og Logi Ásbjörnsson í tölvutíma.

Fleiri myndir á Facebook.com/menntaskoli

Í góðu tómi í Hlíð