Andri Snær (Mynd af Facebook)
Andri Snær (Mynd af Facebook)

Andri Snær Magnason rithöfundur verður með námskeið í skapandi skrifum og skapandi hugsun fyrir ungt fólk, 18 - 25 ára. Námskeiðið fer fram þann 10. okt. frá kl. 13-17 og fer fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Námskeiðið er hluti af samkeppni sem er samvinnuverkefni Amtsbókasafnsins, Akureyrarstofu, Ungmenna-Hússins upplýsinga- og menningarmiðstöðvar í Rósenborg, Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Eyþings.

Námskeiðið kostar ekki neitt en sætaframboð er takmarkað! Skráning á ungskald@akureyri.is

Bækur Andra Snæs hafa komið út í 30 löndum og hann hefur fengið íslensku bókmenntaverðlaunin í öllum flokkum. Hann hefur skrifað barnabækur, ljóð og vísindaskáldsögur, hann skrifaði Draumalandið og leikstýrði heimildamynd með sama nafni og hefur skrifað fyrir leikhús. Meðal þekktustu verka hans eru Sagan af bláa hnettinum (sem er í endalausri sigurför um allan heim) og Love Star svo og ljóðabækur eins og Bónusljóð. Nýjasta skáldsaga hans heitir Tímakistan. Magnað nútímaævintýri.

Ritlistin teygir anga sína í allar áttir og mun Andri Snær miðla af reynslu sinni á námskeiði sem ætti að vera hugvíkkandi og hvetjandi fyrir alla sem vilja feta listabrautina í framtíðinni.