- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í MA er margt afburðafólk í íþróttum, sem stundar tímafrekar og kröfuharðar keppnisíþróttir samhliða námi sínu. Þar á meðal eru skautastúlkurnar Aldís Kara og Kolbrún María sem voru valdar íshokkíkona og skautakona ársins 2019.
Kolbrún María Garðarsdóttir var valin íshokkíkona ársins 2019 af stjórn Íshokkísambands Íslands. Kolbrún María hefur leikið íshokkí nánast eins lengi og hún man eftir sér en hún var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún byrjaði að æfa íshokkí. Kolbrún María er á öðru ári í MA, á félagsgreinabraut.
Eins og segir á vef Íshokkísambandsins: ,,Kolbrún María hefur frá unga aldri leikið með Skautafélagi Akureyrar og varð Íslandsmeistari með liðinu 2019 þar sem hún var næst stigahæsti leikmaður deildarinnar með 27 stig í 10 leikjum. Kolbrún vann bronsverðlaun með íslenska kvennalandsliðinu á heimsmeistaramóti Alþjóða Íshokkísambandsins í apríl síðastliðnum þar sem hún skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar. Kolbrún María var valin besti leikmaður íslenska landsliðsins á mótinu. Kolbrún María Garðarsdóttir er vel að þessu komin enda frábær leikmaður í alla staði, öflugur liðsfélagi, frábær fyrirmynd og er íshokkíhreyfingunni á Íslandi til mikils sóma.“
Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið valin skautakona ársins 2019 af Skautasambandi Íslands. Á vef Skautasambands Íslands segir: ,,Aldís Kara æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko og keppir í unglingaflokki kvenna. Aldís Kara er verðugur fulltrúi ÍSS og vel að viðurkenningunni komin þar sem hún hefur sýnt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur sýnt góðan stöðugleika í keppnum og verið á mikilli siglingu stigalega séð og náði hún á árinu lágmarks tæknistigum ISU í stuttu prógrammi. Fyrir utan innlend mót á vegum ÍSS á árinu 2019 hefur Aldís Kara keppt á RIG, Norðurlandamóti, Junior Grand Prix og á Halloween Cup.“
Aldís Kara er á fyrsta ári í MA, á náttúrufræðibraut. Hún hefur líka æft skauta lengi eða frá því að hún var 6 ára.
Menntaskólinn á Akureyri óskar þessum öflugu skautadrottningum til hamingju með titlana.