- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Dagana 20.- 24. september lagði hópur starfsfólks og nokkurra maka í námsferð til Írlands en megintilgangur ferðarinnar var að heimsækja skóla í Dublin og eiga góða daga saman. Ferðalangarnir flugu út snemma á miðvikudagsmorgni og tók höfuðborgin vel á móti hópnum og veður var með ágætum allan tímann, milt, bjart og gott. Fyrsta sólarhringinn dvaldi hópurinn á fallegu kastalahóteli á Kildaresvæðinu, í sveitasælu rétt utan við Dublin, og átti þar góðar stundir m.a. í útivist, slökun, hópefli og grillveislu.
Á fimmtudeginum var keyrt inn í borgina og fyrsti skólinn, Trinity College, heimsóttur en hann er þekktur og virtur, með aldagamla sögu. Þorfinnur Gunnlaugsson er efnafræðiprófessor við skólann og hann tók vel á móti hópnum og sagði frá sínu lífi og starfi í borginni. Þar á eftir fékk hópurinn skemmtilega leiðsögn um háskólasvæðið og að lokum að dást að Book of Kells og auðvitað einu fegursta bókasafni heims sem háskólinn geymir.
Föstudagurinn bauð upp á tvær skólaheimsóknir, ólíkar þó, og var forvitnilegt að skyggnast inn í hversdaginn hjá framhaldsskólanemum í Dublin og fá að taka þátt í kennslustundum og fylgjast með skólalífinu í St. Andrews annars vegar og Sandymount Park hins vegar. Jarðfræðinemar í St. Andrews taka margir áfanga um Ísland og ferðast hingað til lands með kennara sínum svo það var óvænt og skemmtileg tenging. Vel var tekið á móti starfsmannahópnum á báðum stöðum og kynningarnar á skólunum voru ítarlegar og góðar auk þess sem ágæt innsýn fékkst í skólakerfi Írlands í heild.
Laugardagurinn var nýttur í alls kyns ævintýri í borginni t.d. skoðunarferðir, söfn og hjólatúra. Í bítið á sunnudegi var svo flogið heim og lent í Keflavík um hádegisbil en það voru glaðir ferðalangar sem komu aftur norður á sunnudagseftirmiðdegi eftir vel heppnaða ferð og góðar samverustundir í menningar- og skólaborginni Dublin.