Á skólafundi
Á skólafundi

Í dag var skólafundur þar sem meðal annars var fjallað um niðurstöður í könnunninni Hlustað á nemendur og kynntar reglur um tækjanotkun í skólanum.

Skólafundur er samfundur allra nemenda og starfsmanna skólans. Í þetta sinn var aðalefnið niðurstöður úr könnun sem lögð var fyrir nemendur í 2., 3. og 4. bekk í vetur til að kanna viðhorf til skólans og námsins í víðum skilningi. Tilefnið er ekki síst það að nú hefur ný námskrá verið í gildi í 4 ár og skólinn vill líta um öxl og skoða kosti og galla þeirra breytinga sem orðið hafa. Einnig var kannað viðhorf kennara til breytinganna.

Í könnuninni kom afar margt fram, en jákvæðast er að nemendur bera mikla virðingu fyrir skólanum, starfi hans og starfsfólki. Margt hefur orðið til bóta við breytingarnar, en á þessum tíma hefur það líka gerst að nemendum á raungreinasviði hefur fækkað og margir flutt sig þaðan yfir á tungumála- og félagsgreinasvið. Ýmsar ástæður eru nefndar fyrir því í niðurstöðum könnunarinnar, en þar kemur meðal annars fram að námsálagið sé misjafnt eftir bekkjum, Nemendur efri bekkja skynja það svo að álagið sé lítið í fyrsta bekk en síðan sé stökk á milli bekkja. Í tengslum við það kom fram að leitast verður við að jafna álagið og hafa betri stígandi í skólakerfinu og þar af leiðandi minni tröppugang milli ára. Stefnt er að því að jafna álag í stærðfræði og eðlisfræði, flytja valgreinar úr 2. bekk yfir í 3. bekk og fleira í þeim dúr. Sálfræði verður tekin upp sem kjarnagrein á tungumála- og félagsgreinasviði og svokallaðir velgengnisdagar felldir niður í þeirri mynd sem þeir hafa verið. Þriggja daga uppbrot á kennslu á hverri önn með nýrri stundaskrá og alls kyns tilkostnaði öðrum er of dýr biti fyrir skólann í því fjársvelti sem hann er og hefur verið. Í stað þessa verður tekin upp lífsleikni líkari því sem áður var. Það sem nemendur kváðust helst sakna úr velgengnisdögum, fjármálalæsi, færist meðal annars í lífsleiknina.

Langtímaverkefni er að vinna gegn námskvíða, endurskoða og bæta kjörsvið og endurskoða námsferla.

TækjanotkunSkólafundur

Sérstaklega var fjallað um tækjanotkun, notkun tölva og síma, sem talsvert hefur verið til umtals vegna truflana, sem kennarar hafa rætt um, og slíkt hið sama kemur líka fram í könnuninni sem lögð var fyrir nemendur. Lögð verður áhersla á að nemendur og kennarar vinni saman að því að tryggja námsfrið og vinna gegn truflun. Sérstök nefnd hefur sett saman viðmiðunarreglur þar sem gengið er út frá því að tækjanotkun verði í takti við einkunnarorð skólans, virðingu, víðsýni og árangur. Sum kennsla krefst notkunar tækja, en það verður framvegis undir verkstjórn kennara í hverjum áfanga hvaða reglur gilda um tækjanotkun.

Allmargir nemenur spurðu í fundarlok um eitt og annað í tegslum við könnunina og hugmyndir til breytinga. Fundurinn gekk vel og var vel sóttur, en fundargestum fækkaði nokkuð er á leið.

Stefnt er að skólafundi strax næsta haust um tækjanotkun og þá er stefnt að því að skólafundir verði reglulega framvegis.