- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Næsta vetur munu nýnemar stunda nám samkvæmt nýrri námskrá. Þeir sem verða í 2., 3. og 4. bekk halda áfram samkvæmt eldri námskránni. Breytingar verða á fjölda prófdaga og lengd kennslustunda, og þær munu eiga við um alla nemendur.
Helstu breytingar sem verða með nýrri námskrá frá og með komandi hausti verða þær að einingar í stúdentsprófinu verða 210 (eru 240 núna) og námið er skipulagt á þremur árum í stað fjögurra. Einnig er verið að skipuleggja ferla fyrir nemendur sem kjósa að taka námið á lengri tíma en þremur árum. Skólinn verður þó áfram með bekkjakerfi þannig að nemendur geta ekki ráðið alfarið á hvaða hraða þeir taka námið en sumum áföngum verður hægt að fresta ef þörf er á,
Brautir verða fjórar: Félagsgreinabraut, mála- og menningarbraut, náttúrufræðibraut og raungreinabraut. Nemendum er skipt á brautir strax á fyrsta ári og því líklegt að þeir nemendur sem kjósa að skipta um braut þurfi að bæta við sig einni önn. Líkt og áður hefur komið fram á ma.is er val nemenda mikið.
Samkvæmt tillögum að nýju skólaalmanaki fyrir næsta vetur fækkar prófdögum í lok annar um 2-3 en í þeirra stað koma námsmatsdagar sem dreifast yfir önnina og eru þá hvorttveggja hugsaðir til þess að nemendur hafi tíma til að vinna að verkefnum og kennarar að meta nemendur.
Breytingum á skólaárinu hefur verið frestað til 2017 eins og áður hefur verið greint frá og samkvæmt drögum að almanaki verður skóli settur 8. september 2016.
Kennslustundir munu lengjast um tíu mínútur, verða 50 mínútur í stað 40 mínútna. Verið er að skoða nokkrar útfærslur skóladagsins; hvort kennsla hefjist áfram 8:15 eða verði seinkað til 8:30, hvort matartíminn verði 45 mínútur eða 60 mínútur, hvort einar frímínútur eftir hádegi verði lengri eins og nú er eða þeim sleppt og nemendur því búnir fyrr í skólanum sem því nemur. Nemendur taka fleiri einingar á önn í nýju kerfi og því mun skóladagurinn lengjast eitthvað.
Breytingar á skipulagi kennsludags eiga við alla nemendur, hvort sem þeir eru í nýrri námskrá eða gamalli.
Tillögur að námsferlum hafa verið sendir til menntamálastofnunar og bíða þar samþykktar.