Menntaskólanum á Akureyri verður slitið í 131. sinn og stúdentar brautskráðir við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn 17. júní næstkomandi. Athöfnin hefst klukkan 10.00 en hús er opið frá klukkan 9.00.

Brautskráning stúdenta

Jón Már Héðinsson skólameistari brautskráir í þetta sinn 166 stúdenta. Í upphafi athafnar leikur nýstúdentinn Gauti Baldvinsson á píanó. Við athöfnina munu fulltrúar afmælisárganga flytja skólanum kveðjur og í lokin flytur fráfarandi formaður Hugins, skólafélags MA ávarp nýstúdents.

Að athöfn lokinni í Höllinni er myndataka við Stefánslund, austan Heimavistar og norðan Hóla. Opið hús er í MA og kaffiveitingar í Kvosinni, sal skólans á Hólum, frá hádegi og fram til klukkan 15.00. Gestir eru hvattir til að heimsækja skólann þennan daga og skoða skólahúsin og allt sem þar er að sjá. Meðal annars má benda á sýnishorn af verkefnum nemenda í vetur.

Hátíðarfagnaður nýstúdenta

Að kvöldi 17. juní er Hátíðarfagnaður nýstúdenta í Íþróttahöllinni, en þar verða á annað þúsund gesta, fjölskyldur og vinir nýstúdentanna og starfsfólk skólans, í kvöldverði og skemmtun, þar sem nýstúdentar flytja margvísleg atriði. Þar verður að lokum dansað fram á nótt.

MA-hátíðin

Mikill fjöldi gamalla nemenda skólans verður á Akureyri dagana í kringum 17. júní. Þeir koma í heimsókn í skólann, fara kynnis- og óvissuferðir um bæinn og nágrannasveitir og koma saman á MA-hátíðinni í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní. Tryggð gamalla nemenda við skólann sinn er mikil og á sér langa hefð. Skólinn hefur fóstrað nemendur sína vel og þar hafa verið bundin gagnkvæm tryggðabönd.

Skólahátíð Menntaskólans á Akureyri er þegar allt er talið margra daga hátíð með miklu fjölmenni svo skiptir þúsundum manna. Afmælisstúdentar skipta hundruðum og foreldrar og fjölskyldur nýstúdenta eru stór og mikill hópur. Hátíðin, sem er frá upphafi tengd þjóðhátíðarhaldinu, er ein af fjölmennustu og mestu samkomum sem haldnar eru ár hvert á Akureyri.